Enn einn dagur í baráttunni Ásta F. Flosadóttir skrifar 24. október 2025 11:45 Síðustu daga hafa sjálfskipaðir siðapostular haldið því fram að þessi dagur sé fíflagangur og kjaftæði. Já, það er bara algjört kjaftæði að það sé enn, eftir öll þessi ár, þörf á þessum degi. Það segir okkur eitthvað að 60% karla telji jafnrétti náð, meðan 30% kvenna eru á sömu skoðun. Og hvað fíflaganginn varðar, ég veit ekki með ykkur en mér er ekki hlátur í huga. Ég er leið, stundum reið, og óþolinmóð. Hvenær verður eiginlega fullu jafnrétti náð? Í dag eru 50 ár frá kvennafrídeginum, deginum sem íslenskar konur lögðu niður störf. Markmiðið þá var að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags kvenna. Meginkrafan var jafnrétti, sömu laun fyrir sömu störf og jöfn tækifæri. Dagurinn olli straumhvörfum, það er óumdeilt. Ekki síst vegna samstöðunnar. Sá einstaki kraftur og baráttuandi hefur fært okkur ótal breytingar til batnaðar. 50 ár. Og enn erum við hér. Baráttan er langhlaup. Það þarf seiglu, bæði til að sækja fram og til að verja þá áfanga sem hafa náðst. Það er nefnilega auðvelt að svifta konur réttindum. Eitt alvarlegasta dæmið er takmörkun á rétti kvenna í Bandaríkjunum til þungunarrofs. Land einstaklingsframtaksins og frelsins, bara ekki fyrir hvern sem er. Það er eitthvað svo rangt við það að einhver annar en konan sjálf geti tekið þá erfiðu ákvörðun að fara í þungunarrof. Samt eru bara 6 ár síðan þessi réttur íslenskra kvenna var lögfestur. Í þeirri umræðu skein í gegn forræðishyggja feðraveldisins, eins og konum væri ekki treystandi til að bera ábyrgð á sínum eigin líkama, eins og þeirra val komi einhverjum öðrum við. 50 ár og bátnum hefur svo sannarlega verið ruggað. Kannski óhjákvæmilegt að það komi bakslag. Hópar ungra karlmanna með sterka talsmenn, áhrifavalda, tala fyrir íhaldssömum gildum. Þessar raddir hljóma á samfélagsmiðlum, í hlaðvörpum og fjölmiðlum og meira segja á hinu háa Alþingi. Konur eru best geymdar hlekkjaðar við eldavélina með keðju sem nær passlega inn í rúm. Gamall karlrembubrandari sem var aldrei fyndinn. Konur séu of áberandi, of ráðandi. Konur í áhrifastöðum eru álitnar ógn. Og þetta allt kemur frá ungu mönnunum okkar sem eiga að vita betur, hafa fengið betra uppeldi. Er það skrítið að mani fallist stundum hendur? Og seinna börnin segja: sko mömmu hún hreinsaði til!Og seinna börnin segja; þetta er einmitt sú veröld sem ég vil. Ég er fædd árið 1975. 50 ár. Mamma var 25 ára, húsfreyja í sveit með stórt heimili. Hún var ein af þeim 10% íslenskra kvenna sem tók ekki þátt í kvennafrídeginum. Örugglega ekki eina sveitakonan, sláturannir og haustverk í hámarki, kýr sem þurfti að mjólka, matur sem þurfti að græja, annatími í sveitum. En mamma átti sitt eigið fjármark og helminginn af fénu, vann í öllum útiverkum ásamt húsverkunum. Þau stóðu saman að búrekstrinum og öll ákvörðunartaka var sameiginleg. Ég átti sterkar fyrirmyndir í dugnaði og sjálfstæði og fékk skýr skilaboð um að ég gæti gert og lært það sem ég vildi. Meðan pabbi var einhleypur bóndi var hann með ráðskonu. Hann greiddi ráðskonunni laun og taldi fram á skattframtali. Það fannst skattstjóranum vont, því þessi launakostnaður lækkaði náttúrulega afkomu búsins og þar með skattstofninn.,,Því giftistu ekki þessari ráðskonu þinni? Þá er þessi launagreiðsla óþörf?“Og svarið hjá bóndanum; ,,tja, það er nú aðeins erfitt um vik. Í fyrsta lagi er hún 37 árum eldri en ég… og svo er hún móðir mín!Já, það var ótækt að vera með konu á launaskrá, betra að giftast henni svo hún gæti unnið áfram, nema kauplaust. Og lúmskan grun hef ég um það að tímakaup kvenna í landbúnaði hafi verið og sé enn óheyrilega lágt. Þær sáu um heimilið, að allir hefðu fæði og klæði. Sinntu svo verkum í fjósum og fjárhúsum, heyskap og annarri útivinnu. Víða var reiknað endurgjald einungis fært á karlkyns bóndann. Afleiðingin að lífeyrissjóður margra kvenna sem starfað hafa í landbúnaði er ekki í nokkrum takti við vinnuframlagið. Meðan búreksturinn er allur á kennitölu karlsins þá er réttur konunnar stórlega skertur. Spurning til þín sem ert húsfreyja í sveit: Ertu eigandi, launþegi, eða kannski bara kauplaus þjónn og þræll úreltra siðvenja? Í kvennahópum á fésbók ræða konur um samskipti sín við heilbrigðiskerfið. Umkvörtunarefnin þau sömu, það er gengið milli lækna sem ekki hlusta, gera ekki rannsóknir og afskrifa konur sem síkvartandi. Helstu ráðin eru kvíða- og þunglyndislyf. ,,þarftu ekki bara að vinna minna?” og náttúrulega þetta sígilda: ,,þú þarft aðeins að léttast”. Þekking á hormónaójafnvægi, járnskorti, breytingaskeiðinu og legslímuflakki er takmarkaður og áhuginn sömuleiðis.Það er óþolandi að kona þurfi að taka manninn sinn með til læknisins, svo það sé tekið mark á henni! Misréttið er á ótrúlegustu stöðum, það er inngróið í viðhorf fólks og birtist í ólíku verðmætamati á störfum og virðingarleysi í umræðunni. Þessir litlu hlutir sem klóra í réttlætiskenndina, droparnir sem smátt og smátt fylla mælinn. Við sjáum ósamræmi í íþróttagreinum eftir því hvort um er að ræða stráka eða stelpur, dæmi eru um misstóra verðlaunapeninga, ólíka aðstöðu, misgóða þjálfara og misjafnar greiðslur til leikmanna. Við byrjum snemma að sýna börnunum að stelpurnar séu annars flokks. 50 ár og kröfur dagsins í dag eru þrískiptar, þær fjalla í fyrsta lagi um vanmat á kvennastörfum og launajafnrétti. Vanmat og virðingarleysi gagnvart stórum kvennastéttum hefur löngum verið landlægt. Ekki síst birtist þetta vanmat í viðhorfi til þeirra starfa sem mest eru mönnuð konum af erlendum uppruna. Fjölmörg fyrirtæki og stofnanir sem yrðu óstarfhæf án þeirra. Í Kóvidinu sáum við hvaða störf eru mikilvægustu störfin, sinnt af stéttum svo ómissandi að þær máttu leggja sig í hættu til að halda þjóðfélaginu gangandi. Hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar, kennarar og leikskólakennarar, starfsfólk á spítölum, í umönnunarstörfum og þrifum. Margar svo ómissandi að þær geta ekki lagt niður störf í dag, það myndi ógna lífi og limum þeirra sem síst skyldi. Hetjurnar. Bara ekki metnar til launa. Og ég spyr: Hvað er það dýrmætasta sem þú átt? Bankabókin þín, verðbréfin, húsið eða bíllinn? Eða börnin þín, foreldrar þínir, heilsan þín? Er eðlilegt að sá sem passar peningana þína sé hærra launaður en sá sem passar börnin þín? Á bara hver sem er að fá vinnu í leikskóla?Stéttir sem fylgja okkur á viðkvæmustu stundum lífsins eru að stærstum hluta konur; hjúkrunarfræðingar, ljósmæður, starfsfólk í heimahlynningu, umönnun aldraðra, svo eitthvað sé nefnt. Þetta fólk er með líf annarra í höndunum alla daga. Það er gríðarleg ábyrgð. En þær eru náttúrulega ekki að skapa verðmæti. Hagvöxturinn krakkar, hagvöxturinn! Þar sem peningarnir verða til, þar sem vélarnar hamast, þar sem dansinn dunar kringum gullkálfinn, þar eru launin! En er það eðlilegt? Er það náttúrulögmál? Enn í dag eru hverslags sporslur notaðar til að hækka laun karla. Fríðindi eins og aðgangur að bíl til eigin nota og yfirvinnutímar sem aldrei eru unnir. Hraðari framgangur í starfi. Allt þetta fellur körlum frekar í skaut. Óútskýrður launamunur kynjanna er enn til staðar og ævitekjur kvenna eru um 20% lægri en ævitekjur karla. Meðan svo er, þá er jafnrétti ekki náð. 50 ár og kröfur dagsins í dag eru þrískiptar og fjalla í öðru lagi um ólaunaða vinnu kvenna og umönnunarábyrgð. Tímafrekasta og leiðinlegasta vinnan sem ég hef nokkurntíma verið í er einmitt sú sem ég bað aldrei um, sótti ekki um, fór ekki í atvinnuviðtal út af eða fékk ráðningarsamning. Í þeirri vinnu eru engar fríhelgar, sumarleyfi eða veikindaréttur. Þessi vinna er gegnum gangandi allan sólarhringinn og henni er ekki hægt að segja upp. Alveg ömurlegt djobb. Þetta er að sjálfsögðu fjárans þriðja vaktin. Ábyrgð, yfirsýn og skipulag á fjölskyldulífi og fjölskyldumeðlimum. Allt sem þarf að muna eftir, gera og græja; er búið að læra heima, æfa á hljóðfærið, kaupa afmælisgjöf fyrir tengdó, panta tannlæknatíma og herraklippingu fyrir karlinn. Fara með mömmu til læknis og tékka hvort unglingurinn hafi ekki örugglega sótt um dreifbýlisstyrkinn. Hvað á að hafa í matinn í kvöld, og á morgun og hinn og hinn og hinn og hinn! Þriðja vaktin er ótrúlega slítandi. Hún keyrir hjónabönd í þrot og sendir konur í kulnun og veikindaleyfi í stórum stíl. Fyrir nokkrum árum var ég að skoða spánýtt elliheimili. Leist bara vel á, sá fyrir mér heimavistarstemninguna að viðbættu sherrý og súkkulaði og hvað það nú er sem gamalt fólk geymir í skápunum. Nægur tími til að lesa allar ólesnu bækurnar, sofa, púsla, horfa út um gluggann, hugsa, spila, spjalla og skemmta sér. Himnaríki. Og þar sem ég stóð þarna og var farin að telja niður árin þar til ég kæmist inn á þennan dásemdarstað, þá lét forstöðukonan sprengjuna falla: „já og svo geta heimilismenn sjálfir sett í þvottavél, eldað sér mat og jafnvel þrifið herbergið. Við hvetjum alla til að gera sem mest, það er svo gefandi“.Andskotinn eigi mig ef það að þvo þvott og þrífa er gefandi!! Af hverju í ósköpunum ætti nokkurt gamalmenni að vilja það? Eru konur ekki bara búnar að elda, þvo og þrífa sér til óbóta á langri ævi? Er ekki einu sinni friður á elliheimilinu? Algjörlega óvart uppgötva margar konur að þær eru í ólaunaðri og stundum fremur vanþakklátri vinnu sem framkvæmdastjóri heimilisins. Þar sem hinn fullorðni aðilinn á heimilinu hefur lítið frumkvæði og vill svo fá hrós fyrir hvert handtak sem hann gerir. Hér er mikið sóknarfæri fyrir marga karla og nauðsynlegt að þeir stígi inn. Að sjá um börn og heimili er fullt starf. Það er ósanngjarnt og óþolandi að það starf lendi að mestu á herðum kvenna. Við þurfum að búa betur að unga fólkinu okkar, gera því kleift að eignast börn og ala þau upp í sameiningu, verkaskiptingin inn á heimilinu þarf að verða jafnari. Erum við að þjálfa drengina okkar og ungu mennina í því? Hvernig er þetta á þínu heimili? 50 ár og kröfur dagsins í dag eru þrískiptar og fjalla í þriðja lagi um kynbundið ofbeldi. Ég er unglingur að fara í göngur í fyrsta skipti. Í gangnakofanum er ég eina stelpan. Um kvöldið eru karlarnir að raupa og staupa sig, en pabbi lítið og hann vill að við förum snemma í koju. Hann vísar mér í koju upp við vegginn og leggst sjálfur við hliðina á mér, frændi minn næstur. Ég fæ sterkt á tilfinninguna að þeir séu að passa mig, en fyrir hverju veit ég ekki, það er ekki eins og ég þekki ekki alla þessa menn. Seinna átta ég mig á því að þetta var ekki að ástæðulausu. Langflest fórnarlömb kynferðisofbeldis þekkja gerandann. Og ótrúlegasta fólk er fært um ótrúlegustu hluti. Árið 1994 er ég 19 ára. Samkvæmt niðurstöðu Gallup könnunar telur meira en helmingur karla á aldrinum 15 til 24 ára réttlætanlegt að karlar berji konur sínar. Frétt um könnunina er birt á innsíðu Moggans innan um fréttir af loðnuköstum og bridsspilun. Þetta er afskrifað sem unggæðingsháttur, hlutfallið lækkar jú í 40% með hækkandi aldri karlanna… Þessir ungu menn eru nú um fimmtugt. Ráðandi á öllum sviðum. En hefur viðhorf þeirra gagnvart heimilisofbeldi breyst?24 árum síðar sitja tveir jafnaldrar mínir í góðra vina hópi á Klausturbar, og miðað við kvenfyrirlitninguna sem lekur af þeim þá hefur viðhorfið lítið lagast. Umhugsunarefni er það að þolendur heimilisofbeldis eru einu þolendurnir sem eru þvingaðir, af ríkinu til áframhaldandi samskipta við geranda sinn, allt í þágu réttar gerandans til að umgangast börnin. Samkvæmt nýjustu tölum frá landlækni hafa 13% framhaldsskólanema orðið fyrir alvarlegu kynferðislegu ofbeldi. Miðað við þá prósentu eru í VMA um 120 nemendur með þessa erfiðu reynslu á bakinu. Um 75 nemendur Í MA og í Laugaskóla ættu að vera 15 nemendur í þessum sporum. Svo við setjum þessa prósentu í samhengi. Ég þekki mörg dæmi um kynferðisofbeldi, og tölurnar segja okkur að þið gerið það líka. Ég hef setið með ungum stúlkum og fullorðnum konum og hlustað, ég hef tekið þátt í að fela ungar konur ásamt börnum fyrir ofbeldisfullum sambýlismönnum, ég hef verið klipin í brjóstin á skemmtun og ég hef fengið ógeðslegar sendingar í símann minn. Bara partur af því að vera kona? Í alvöru?? Er þetta faraldur ofbeldis, eða eru konur bara meira að segja frá? Sláandi að aðeins um 10% þeirra mála sem koma inn á borð hjá Stígamótum eru kærð. Það hlutfall hefur ekki hækkað í 35 ár. Nú á haustdögum dæmdi mannréttindadómstóll Evrópu Íslenska ríkið fyrir að fella niður nauðgunarkæru. Þolendur lýsa kæruferlinu öllu sem alsherjar svipugöngu. Óheyrilegur seinagangur er metinn ofbeldismanninum til refsilækkunar en hvað með þjáningar þolandans? Er réttarkerfið ekki að tryggja réttlæti? Komast gerendur bara upp með brotin? Það er vitað að áföll og ofbeldi valda djúpum sárum á sálarlífinu, sárum sem geta leitt til langvarandi andlegra og líkamlegra veikinda og jafnvel örorku. Kostnað samfélagsins vegna þessa er erfitt að reikna en hann er hrikalegur. Allar þessar konur sem eru á örorku, hversu stór hluti þeirra er fórnarlömb ofbeldis? 50 ár og enn er jafnrétti ekki náð. Jafnrétti er ekki náð þó kona sé biskup, forsætisráðherra, lögreglustjóri og forseti. Jafnrétti verður aðeins náð þegar hlustað er á raddir kynjanna jafnt, þegar samfélagið hættir að stilla okkur upp: stelpur á móti strákum. Þegar kyn og kynhneigð fólks hættir að vera ógnandi. Þegar við getum öll umgengist hvort annað með umburðarlyndi og virðingu fyrir fjölbreytileikanum. Í stuttu máli sagt: Jafnrétti er náð þegar það hættir að skipta máli hvaða tól við höfum í nærbuxunum. Það sem vekur manni vonir er þessi fundur. Þessi dagur. Samstaða kvenna og kvára og stuðningur þeirra karla sem átta sig á óréttlætinu, þeirra karla sem ekki eru helteknir af eigin forréttindablindu. Elsku strákarnir okkar. Þessi hópur karla er stór, hann fer stækkandi, en hann mætti alveg hafa hærra. Strákar! Við þurfum á ykkur að halda! Jafnrétti er ekki einkamál kvenna. 50 ár. Og hér erum við. Og við mætum þar til þess þarf ekki lengur!Fyrir ungu stúlkurnar og fyrir drengina okkar. Fyrir börnin og ófæddar kynslóðir. Stundin er runnin upp! Höfundur er kona. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Kvennafrídagurinn Kvennaverkfall Mest lesið Mamma fékk fjórar milljónir fyrir að eignast þig í apríl Guðfinna Kristín Björnsdóttir Skoðun Tímaskekkja í velferðarríki Stefán Þorri Helgason Skoðun Þegar Steve Jobs græddi milljarða á Toy Story Björn Berg Gunnarsson Fastir pennar Þreytta þjóðarsjálfið Starri Reynisson Skoðun Umferðarslys eða umhverfisslys Baldur Sigurðsson Skoðun Þegar Inga Sæland sendir reikninginn á næsta borð Einar Þorsteinsson Skoðun Síðan hvenær var bannað að hafa gaman? Hópur stjórnarmanna í Uppreisn Skoðun Milljarðarnir óteljandi og bókun 35 Haraldur Ólafsson Skoðun Vextir eins og í útlöndum? Björn Berg Gunnarsson Skoðun Kynjuð vísindi, leikskólaráð á villigötum, klámsýki, svipmyndir frá Norður-Kóreu Fastir pennar Skoðun Skoðun Frá friði til vígvæðingar: Höfnum nýrri varnar- og öryggisstefnu utanríkisráðherra Steinunn Þóra Árnadóttir,Einar Ólafsson skrifar Skoðun Þungaflutningar og vegakerfið okkar Haraldur Þór Jónsson skrifar Skoðun Stærsta öryggismál barna í dag eru samskipti, mörk og viðbrögð við grun um ofbeldi Arnrún María Magnúsdóttir skrifar Skoðun Stöðvum ólöglegan flutning barna Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir skrifar Skoðun Þegar Inga Sæland sendir reikninginn á næsta borð Einar Þorsteinsson skrifar Skoðun Erlendar rætur: Hornsteinn framfara, ekki ógn Nichole Leigh Mosty skrifar Skoðun Virðingarleysið meiðir Sigurbjörg Ottesen skrifar Skoðun Kjarninn og hismið Magnús Magnússon skrifar Skoðun „Hættu að kenna innflytjendum um að tala ekki íslensku. Við erum ekki vandamálið“ Ian McDonald skrifar Skoðun Brjálæðingar taka völdin Elín Ebba Ásmundsdóttir skrifar Skoðun Ég og Dagur barnsins HRÓPUM á úrlausnir … Hvað með þig? Ólafur Grétar Gunnarsson skrifar Skoðun 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi Guðbjörg S. Bergsdóttir,Rannveig Þórisdóttir skrifar Skoðun Ætti Sundabraut að koma við í Viðey? Ólafur William Hand skrifar Skoðun Ekki klikka! Því það er enginn eins og Julian Íris Björk Hreinsdóttir skrifar Skoðun Þess vegna er vond hugmynd hjá Reykjavíkurborg að tekjutengja leikskólagjöld Halla Gunnarsdóttir skrifar Skoðun Mamma fékk fjórar milljónir fyrir að eignast þig í apríl Guðfinna Kristín Björnsdóttir skrifar Skoðun 34 milljónir fyrir póstnúmerið Elliði Vignisson skrifar Skoðun Spyrnum við fótum – eflum innlenda fjölmiðla, líka RÚV Kristján Ra. Kristjánsson skrifar Skoðun Staðreyndir um fasteignagjöld í Reykjanesbæ Guðný Birna Guðmundsdóttir,Sverrir Bergmann Magnússon,Sigurrós Antonsdóttir,Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir,Bjarni Páll Tryggvason,Díana Hilmarsdóttir,Helga María Finnbjörnsdóttir skrifar Skoðun Þegar rykið sest: Verndartollar ESB og áhrifin á EES Hallgrímur Oddsson skrifar Skoðun Stormur í vatnsglasi eða kaldhæðni örlaganna? Arnar Sigurðsson skrifar Skoðun Síðan hvenær var bannað að hafa gaman? Hópur stjórnarmanna í Uppreisn skrifar Skoðun Ísland slítur sig frá þriggja áratuga norrænu menntasamstarfi Hópur fyrrverandi UWC-nema skrifar Skoðun Frá skjá til skaða - ráð til foreldra um stafrænt ofbeldi Stella Samúelsdóttir skrifar Skoðun Barnaskattur Vilhjálms Árnasonar Þórður Snær Júlíusson skrifar Skoðun Hertar og skýrari reglur í hælisleitendamálum Sigurður Helgi Pálmason skrifar Skoðun Skelin Guðmundur Ingi Þóroddsson skrifar Skoðun Ójöfn atkvæði eða heimastjórn! Sigurður Hjartarson skrifar Skoðun Sirkus Daða Smart Jens Garðar Helgason skrifar Skoðun Bændur fá ekki orðið Jóhanna María Sigmundsdóttir skrifar Sjá meira
Síðustu daga hafa sjálfskipaðir siðapostular haldið því fram að þessi dagur sé fíflagangur og kjaftæði. Já, það er bara algjört kjaftæði að það sé enn, eftir öll þessi ár, þörf á þessum degi. Það segir okkur eitthvað að 60% karla telji jafnrétti náð, meðan 30% kvenna eru á sömu skoðun. Og hvað fíflaganginn varðar, ég veit ekki með ykkur en mér er ekki hlátur í huga. Ég er leið, stundum reið, og óþolinmóð. Hvenær verður eiginlega fullu jafnrétti náð? Í dag eru 50 ár frá kvennafrídeginum, deginum sem íslenskar konur lögðu niður störf. Markmiðið þá var að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags kvenna. Meginkrafan var jafnrétti, sömu laun fyrir sömu störf og jöfn tækifæri. Dagurinn olli straumhvörfum, það er óumdeilt. Ekki síst vegna samstöðunnar. Sá einstaki kraftur og baráttuandi hefur fært okkur ótal breytingar til batnaðar. 50 ár. Og enn erum við hér. Baráttan er langhlaup. Það þarf seiglu, bæði til að sækja fram og til að verja þá áfanga sem hafa náðst. Það er nefnilega auðvelt að svifta konur réttindum. Eitt alvarlegasta dæmið er takmörkun á rétti kvenna í Bandaríkjunum til þungunarrofs. Land einstaklingsframtaksins og frelsins, bara ekki fyrir hvern sem er. Það er eitthvað svo rangt við það að einhver annar en konan sjálf geti tekið þá erfiðu ákvörðun að fara í þungunarrof. Samt eru bara 6 ár síðan þessi réttur íslenskra kvenna var lögfestur. Í þeirri umræðu skein í gegn forræðishyggja feðraveldisins, eins og konum væri ekki treystandi til að bera ábyrgð á sínum eigin líkama, eins og þeirra val komi einhverjum öðrum við. 50 ár og bátnum hefur svo sannarlega verið ruggað. Kannski óhjákvæmilegt að það komi bakslag. Hópar ungra karlmanna með sterka talsmenn, áhrifavalda, tala fyrir íhaldssömum gildum. Þessar raddir hljóma á samfélagsmiðlum, í hlaðvörpum og fjölmiðlum og meira segja á hinu háa Alþingi. Konur eru best geymdar hlekkjaðar við eldavélina með keðju sem nær passlega inn í rúm. Gamall karlrembubrandari sem var aldrei fyndinn. Konur séu of áberandi, of ráðandi. Konur í áhrifastöðum eru álitnar ógn. Og þetta allt kemur frá ungu mönnunum okkar sem eiga að vita betur, hafa fengið betra uppeldi. Er það skrítið að mani fallist stundum hendur? Og seinna börnin segja: sko mömmu hún hreinsaði til!Og seinna börnin segja; þetta er einmitt sú veröld sem ég vil. Ég er fædd árið 1975. 50 ár. Mamma var 25 ára, húsfreyja í sveit með stórt heimili. Hún var ein af þeim 10% íslenskra kvenna sem tók ekki þátt í kvennafrídeginum. Örugglega ekki eina sveitakonan, sláturannir og haustverk í hámarki, kýr sem þurfti að mjólka, matur sem þurfti að græja, annatími í sveitum. En mamma átti sitt eigið fjármark og helminginn af fénu, vann í öllum útiverkum ásamt húsverkunum. Þau stóðu saman að búrekstrinum og öll ákvörðunartaka var sameiginleg. Ég átti sterkar fyrirmyndir í dugnaði og sjálfstæði og fékk skýr skilaboð um að ég gæti gert og lært það sem ég vildi. Meðan pabbi var einhleypur bóndi var hann með ráðskonu. Hann greiddi ráðskonunni laun og taldi fram á skattframtali. Það fannst skattstjóranum vont, því þessi launakostnaður lækkaði náttúrulega afkomu búsins og þar með skattstofninn.,,Því giftistu ekki þessari ráðskonu þinni? Þá er þessi launagreiðsla óþörf?“Og svarið hjá bóndanum; ,,tja, það er nú aðeins erfitt um vik. Í fyrsta lagi er hún 37 árum eldri en ég… og svo er hún móðir mín!Já, það var ótækt að vera með konu á launaskrá, betra að giftast henni svo hún gæti unnið áfram, nema kauplaust. Og lúmskan grun hef ég um það að tímakaup kvenna í landbúnaði hafi verið og sé enn óheyrilega lágt. Þær sáu um heimilið, að allir hefðu fæði og klæði. Sinntu svo verkum í fjósum og fjárhúsum, heyskap og annarri útivinnu. Víða var reiknað endurgjald einungis fært á karlkyns bóndann. Afleiðingin að lífeyrissjóður margra kvenna sem starfað hafa í landbúnaði er ekki í nokkrum takti við vinnuframlagið. Meðan búreksturinn er allur á kennitölu karlsins þá er réttur konunnar stórlega skertur. Spurning til þín sem ert húsfreyja í sveit: Ertu eigandi, launþegi, eða kannski bara kauplaus þjónn og þræll úreltra siðvenja? Í kvennahópum á fésbók ræða konur um samskipti sín við heilbrigðiskerfið. Umkvörtunarefnin þau sömu, það er gengið milli lækna sem ekki hlusta, gera ekki rannsóknir og afskrifa konur sem síkvartandi. Helstu ráðin eru kvíða- og þunglyndislyf. ,,þarftu ekki bara að vinna minna?” og náttúrulega þetta sígilda: ,,þú þarft aðeins að léttast”. Þekking á hormónaójafnvægi, járnskorti, breytingaskeiðinu og legslímuflakki er takmarkaður og áhuginn sömuleiðis.Það er óþolandi að kona þurfi að taka manninn sinn með til læknisins, svo það sé tekið mark á henni! Misréttið er á ótrúlegustu stöðum, það er inngróið í viðhorf fólks og birtist í ólíku verðmætamati á störfum og virðingarleysi í umræðunni. Þessir litlu hlutir sem klóra í réttlætiskenndina, droparnir sem smátt og smátt fylla mælinn. Við sjáum ósamræmi í íþróttagreinum eftir því hvort um er að ræða stráka eða stelpur, dæmi eru um misstóra verðlaunapeninga, ólíka aðstöðu, misgóða þjálfara og misjafnar greiðslur til leikmanna. Við byrjum snemma að sýna börnunum að stelpurnar séu annars flokks. 50 ár og kröfur dagsins í dag eru þrískiptar, þær fjalla í fyrsta lagi um vanmat á kvennastörfum og launajafnrétti. Vanmat og virðingarleysi gagnvart stórum kvennastéttum hefur löngum verið landlægt. Ekki síst birtist þetta vanmat í viðhorfi til þeirra starfa sem mest eru mönnuð konum af erlendum uppruna. Fjölmörg fyrirtæki og stofnanir sem yrðu óstarfhæf án þeirra. Í Kóvidinu sáum við hvaða störf eru mikilvægustu störfin, sinnt af stéttum svo ómissandi að þær máttu leggja sig í hættu til að halda þjóðfélaginu gangandi. Hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar, kennarar og leikskólakennarar, starfsfólk á spítölum, í umönnunarstörfum og þrifum. Margar svo ómissandi að þær geta ekki lagt niður störf í dag, það myndi ógna lífi og limum þeirra sem síst skyldi. Hetjurnar. Bara ekki metnar til launa. Og ég spyr: Hvað er það dýrmætasta sem þú átt? Bankabókin þín, verðbréfin, húsið eða bíllinn? Eða börnin þín, foreldrar þínir, heilsan þín? Er eðlilegt að sá sem passar peningana þína sé hærra launaður en sá sem passar börnin þín? Á bara hver sem er að fá vinnu í leikskóla?Stéttir sem fylgja okkur á viðkvæmustu stundum lífsins eru að stærstum hluta konur; hjúkrunarfræðingar, ljósmæður, starfsfólk í heimahlynningu, umönnun aldraðra, svo eitthvað sé nefnt. Þetta fólk er með líf annarra í höndunum alla daga. Það er gríðarleg ábyrgð. En þær eru náttúrulega ekki að skapa verðmæti. Hagvöxturinn krakkar, hagvöxturinn! Þar sem peningarnir verða til, þar sem vélarnar hamast, þar sem dansinn dunar kringum gullkálfinn, þar eru launin! En er það eðlilegt? Er það náttúrulögmál? Enn í dag eru hverslags sporslur notaðar til að hækka laun karla. Fríðindi eins og aðgangur að bíl til eigin nota og yfirvinnutímar sem aldrei eru unnir. Hraðari framgangur í starfi. Allt þetta fellur körlum frekar í skaut. Óútskýrður launamunur kynjanna er enn til staðar og ævitekjur kvenna eru um 20% lægri en ævitekjur karla. Meðan svo er, þá er jafnrétti ekki náð. 50 ár og kröfur dagsins í dag eru þrískiptar og fjalla í öðru lagi um ólaunaða vinnu kvenna og umönnunarábyrgð. Tímafrekasta og leiðinlegasta vinnan sem ég hef nokkurntíma verið í er einmitt sú sem ég bað aldrei um, sótti ekki um, fór ekki í atvinnuviðtal út af eða fékk ráðningarsamning. Í þeirri vinnu eru engar fríhelgar, sumarleyfi eða veikindaréttur. Þessi vinna er gegnum gangandi allan sólarhringinn og henni er ekki hægt að segja upp. Alveg ömurlegt djobb. Þetta er að sjálfsögðu fjárans þriðja vaktin. Ábyrgð, yfirsýn og skipulag á fjölskyldulífi og fjölskyldumeðlimum. Allt sem þarf að muna eftir, gera og græja; er búið að læra heima, æfa á hljóðfærið, kaupa afmælisgjöf fyrir tengdó, panta tannlæknatíma og herraklippingu fyrir karlinn. Fara með mömmu til læknis og tékka hvort unglingurinn hafi ekki örugglega sótt um dreifbýlisstyrkinn. Hvað á að hafa í matinn í kvöld, og á morgun og hinn og hinn og hinn og hinn! Þriðja vaktin er ótrúlega slítandi. Hún keyrir hjónabönd í þrot og sendir konur í kulnun og veikindaleyfi í stórum stíl. Fyrir nokkrum árum var ég að skoða spánýtt elliheimili. Leist bara vel á, sá fyrir mér heimavistarstemninguna að viðbættu sherrý og súkkulaði og hvað það nú er sem gamalt fólk geymir í skápunum. Nægur tími til að lesa allar ólesnu bækurnar, sofa, púsla, horfa út um gluggann, hugsa, spila, spjalla og skemmta sér. Himnaríki. Og þar sem ég stóð þarna og var farin að telja niður árin þar til ég kæmist inn á þennan dásemdarstað, þá lét forstöðukonan sprengjuna falla: „já og svo geta heimilismenn sjálfir sett í þvottavél, eldað sér mat og jafnvel þrifið herbergið. Við hvetjum alla til að gera sem mest, það er svo gefandi“.Andskotinn eigi mig ef það að þvo þvott og þrífa er gefandi!! Af hverju í ósköpunum ætti nokkurt gamalmenni að vilja það? Eru konur ekki bara búnar að elda, þvo og þrífa sér til óbóta á langri ævi? Er ekki einu sinni friður á elliheimilinu? Algjörlega óvart uppgötva margar konur að þær eru í ólaunaðri og stundum fremur vanþakklátri vinnu sem framkvæmdastjóri heimilisins. Þar sem hinn fullorðni aðilinn á heimilinu hefur lítið frumkvæði og vill svo fá hrós fyrir hvert handtak sem hann gerir. Hér er mikið sóknarfæri fyrir marga karla og nauðsynlegt að þeir stígi inn. Að sjá um börn og heimili er fullt starf. Það er ósanngjarnt og óþolandi að það starf lendi að mestu á herðum kvenna. Við þurfum að búa betur að unga fólkinu okkar, gera því kleift að eignast börn og ala þau upp í sameiningu, verkaskiptingin inn á heimilinu þarf að verða jafnari. Erum við að þjálfa drengina okkar og ungu mennina í því? Hvernig er þetta á þínu heimili? 50 ár og kröfur dagsins í dag eru þrískiptar og fjalla í þriðja lagi um kynbundið ofbeldi. Ég er unglingur að fara í göngur í fyrsta skipti. Í gangnakofanum er ég eina stelpan. Um kvöldið eru karlarnir að raupa og staupa sig, en pabbi lítið og hann vill að við förum snemma í koju. Hann vísar mér í koju upp við vegginn og leggst sjálfur við hliðina á mér, frændi minn næstur. Ég fæ sterkt á tilfinninguna að þeir séu að passa mig, en fyrir hverju veit ég ekki, það er ekki eins og ég þekki ekki alla þessa menn. Seinna átta ég mig á því að þetta var ekki að ástæðulausu. Langflest fórnarlömb kynferðisofbeldis þekkja gerandann. Og ótrúlegasta fólk er fært um ótrúlegustu hluti. Árið 1994 er ég 19 ára. Samkvæmt niðurstöðu Gallup könnunar telur meira en helmingur karla á aldrinum 15 til 24 ára réttlætanlegt að karlar berji konur sínar. Frétt um könnunina er birt á innsíðu Moggans innan um fréttir af loðnuköstum og bridsspilun. Þetta er afskrifað sem unggæðingsháttur, hlutfallið lækkar jú í 40% með hækkandi aldri karlanna… Þessir ungu menn eru nú um fimmtugt. Ráðandi á öllum sviðum. En hefur viðhorf þeirra gagnvart heimilisofbeldi breyst?24 árum síðar sitja tveir jafnaldrar mínir í góðra vina hópi á Klausturbar, og miðað við kvenfyrirlitninguna sem lekur af þeim þá hefur viðhorfið lítið lagast. Umhugsunarefni er það að þolendur heimilisofbeldis eru einu þolendurnir sem eru þvingaðir, af ríkinu til áframhaldandi samskipta við geranda sinn, allt í þágu réttar gerandans til að umgangast börnin. Samkvæmt nýjustu tölum frá landlækni hafa 13% framhaldsskólanema orðið fyrir alvarlegu kynferðislegu ofbeldi. Miðað við þá prósentu eru í VMA um 120 nemendur með þessa erfiðu reynslu á bakinu. Um 75 nemendur Í MA og í Laugaskóla ættu að vera 15 nemendur í þessum sporum. Svo við setjum þessa prósentu í samhengi. Ég þekki mörg dæmi um kynferðisofbeldi, og tölurnar segja okkur að þið gerið það líka. Ég hef setið með ungum stúlkum og fullorðnum konum og hlustað, ég hef tekið þátt í að fela ungar konur ásamt börnum fyrir ofbeldisfullum sambýlismönnum, ég hef verið klipin í brjóstin á skemmtun og ég hef fengið ógeðslegar sendingar í símann minn. Bara partur af því að vera kona? Í alvöru?? Er þetta faraldur ofbeldis, eða eru konur bara meira að segja frá? Sláandi að aðeins um 10% þeirra mála sem koma inn á borð hjá Stígamótum eru kærð. Það hlutfall hefur ekki hækkað í 35 ár. Nú á haustdögum dæmdi mannréttindadómstóll Evrópu Íslenska ríkið fyrir að fella niður nauðgunarkæru. Þolendur lýsa kæruferlinu öllu sem alsherjar svipugöngu. Óheyrilegur seinagangur er metinn ofbeldismanninum til refsilækkunar en hvað með þjáningar þolandans? Er réttarkerfið ekki að tryggja réttlæti? Komast gerendur bara upp með brotin? Það er vitað að áföll og ofbeldi valda djúpum sárum á sálarlífinu, sárum sem geta leitt til langvarandi andlegra og líkamlegra veikinda og jafnvel örorku. Kostnað samfélagsins vegna þessa er erfitt að reikna en hann er hrikalegur. Allar þessar konur sem eru á örorku, hversu stór hluti þeirra er fórnarlömb ofbeldis? 50 ár og enn er jafnrétti ekki náð. Jafnrétti er ekki náð þó kona sé biskup, forsætisráðherra, lögreglustjóri og forseti. Jafnrétti verður aðeins náð þegar hlustað er á raddir kynjanna jafnt, þegar samfélagið hættir að stilla okkur upp: stelpur á móti strákum. Þegar kyn og kynhneigð fólks hættir að vera ógnandi. Þegar við getum öll umgengist hvort annað með umburðarlyndi og virðingu fyrir fjölbreytileikanum. Í stuttu máli sagt: Jafnrétti er náð þegar það hættir að skipta máli hvaða tól við höfum í nærbuxunum. Það sem vekur manni vonir er þessi fundur. Þessi dagur. Samstaða kvenna og kvára og stuðningur þeirra karla sem átta sig á óréttlætinu, þeirra karla sem ekki eru helteknir af eigin forréttindablindu. Elsku strákarnir okkar. Þessi hópur karla er stór, hann fer stækkandi, en hann mætti alveg hafa hærra. Strákar! Við þurfum á ykkur að halda! Jafnrétti er ekki einkamál kvenna. 50 ár. Og hér erum við. Og við mætum þar til þess þarf ekki lengur!Fyrir ungu stúlkurnar og fyrir drengina okkar. Fyrir börnin og ófæddar kynslóðir. Stundin er runnin upp! Höfundur er kona.
Skoðun Frá friði til vígvæðingar: Höfnum nýrri varnar- og öryggisstefnu utanríkisráðherra Steinunn Þóra Árnadóttir,Einar Ólafsson skrifar
Skoðun Stærsta öryggismál barna í dag eru samskipti, mörk og viðbrögð við grun um ofbeldi Arnrún María Magnúsdóttir skrifar
Skoðun „Hættu að kenna innflytjendum um að tala ekki íslensku. Við erum ekki vandamálið“ Ian McDonald skrifar
Skoðun Þess vegna er vond hugmynd hjá Reykjavíkurborg að tekjutengja leikskólagjöld Halla Gunnarsdóttir skrifar
Skoðun Mamma fékk fjórar milljónir fyrir að eignast þig í apríl Guðfinna Kristín Björnsdóttir skrifar
Skoðun Staðreyndir um fasteignagjöld í Reykjanesbæ Guðný Birna Guðmundsdóttir,Sverrir Bergmann Magnússon,Sigurrós Antonsdóttir,Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir,Bjarni Páll Tryggvason,Díana Hilmarsdóttir,Helga María Finnbjörnsdóttir skrifar
Skoðun Ísland slítur sig frá þriggja áratuga norrænu menntasamstarfi Hópur fyrrverandi UWC-nema skrifar