Erlent

Stofnar Facebook hóp fyrir hatur gegn sjálfum sér

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Lars Løkke Rasmussen, utanríkisráðherra Danmerkur, fer óhefðbundnar leiðir til að svara andstæðingum sínum.
Lars Løkke Rasmussen, utanríkisráðherra Danmerkur, fer óhefðbundnar leiðir til að svara andstæðingum sínum. EPA

Lars Løkke Rasmussen, utanríkisráðherra Danmerkur, hefur vakið athygli fyrir nokkuð óhefðbundna leið sem hann hefur ákveðið að fara til að mæta andstæðingum sínum. Þannig hefur Løkke stofnað sérstakan Facebook hóp sem hugsaður er sem vettvangur fyrir hatur gegn sjálfum sér. „Öll okkar sem hata Løkke“ er nafn hópsins sem er stjórnað af opinberum Facebook aðgangi ráðherrans.

TV2 greindi frá stofnun Facebook hópsins í gær en hann var stofnaður í lok október. „Það er félagsskapur fyrir allt mögulegt – og nú líka fyrir hatrið gegn mér. Hér getið þið deilt óánægju ykkar og skoðunum á minni persónu. Ég hlakka sjálfur til að taka virkan þátt,“ skrifar Løkke í lýsingu fyrir hópinn. Þegar þetta er skrifað eru meðlimir hópsins orðnir um tvö hundruð talsins.

Í frétt TV2 er bent á að notandi samfélagsmiðilsins hafi til að mynda skrifað neikvæða athugasemd beint á Facebook-prófíl Løkke, sem hafi bent viðkomandi á nýja Facebook hópinn og skrifað „við sjáumst hérna inni.“

Í samtali við Watch Medier segir Karsten Pedersen, lektor við Hróaskelduháskóla og greinandi í stjórnmálasamskiptum, segist Pedersen eiga erfitt með að sjá hvernig Facebook-hópur af þessum toga eigi að koma böndum á hatrið sem beinist gegn ráðherranum.

„Einfaldlega vegna þess að þeir einstaklingar sem eru mjög gagnrýnir á Lars Løkke Rassmusen, hafa væntanlega ekki áhuga á að fara inn í hans hóp,“ segir Pedersen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×