Viðskipti innlent

Happy Hydrate seldi fyrir 302 milljónir

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Arnar Gauti Arnarsson, öðru nafni Lil Curly, er einn eigenda Hydrate ehf.
Arnar Gauti Arnarsson, öðru nafni Lil Curly, er einn eigenda Hydrate ehf. Vísir/Samsett

Happy Hydrate seldi vörur fyrir rúmar 302 milljónir króna á síðasta ári. Um er að ræða tíföldun rekstrartekna frá árinu þar á undan en þrátt fyrir það var félagið rekið með tæplega 900 þúsund króna tapi.

Þetta kemur fram í ársreikningi Hydrate ehf. sem framleiðir og selur vörur undir vörumerkinu Happy Hydrate. Félagið hefur verið gagnrýnt fyrir að markaðssetja steinefnasaltsdrykki fyrir ung börn sem hafa litla sem enga þörf fyrir slíkt. Samkvæmt ársreikningnum kostaði tæplega 91 milljón að framleiða vörurnar, annar rekstrarkostnaður nam rúmri 161 milljón króna og laun og launategnd gjöld námu 28 milljónum.

Rekstrarhagnaður félagsins á árinu nam 22 og hálfri milljón en milljón króna afskriftir, fjármagnsgjöld og gengismunur urðu til þess að hagnaðurinn varð að tapi.

Vörubirðir félagsins um síðustu áramót námu tæplega 55 milljónum króna og viðskiptakröfur upp á 17 milljónir. Við þetta bætist bíll og úr verða samanlagðar eignir upp á tæplega 74 milljónir króna.

Í síðasta mánuði gagnrýndi hópur næringarfræðinga markaðssetningu félagsins á steinefnadrykkjum sem ætlaðir eru börnum. Í september kynnti Happy Hydrate inn steinefnahylki fyrir börn, „Hydration Kids“. Á vefsíðu fyrirtækisins segir að hylkin séu ætluð börnum fjögurra ára og eldri. Í greininni bendir hópurinn á að utan á pakkningunni sem um ræðir séu ýmsir þættir taldir upp sem gætu stuðlað að því að börn þurfi aukin sölt, meðal annars svefn og leikur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×