Handbolti

Gid­sel kom í veg fyrir gleði Orra en Viktor varði víti sem Ís­lendingar dæmdu

Sindri Sverrisson skrifar
Mathias Gidsel naut sín í botn í Lissabon í kvöld og skoraði þrettán mörk fyrir framan græna stúku.
Mathias Gidsel naut sín í botn í Lissabon í kvöld og skoraði þrettán mörk fyrir framan græna stúku. EPA/MANUEL DE ALMEIDA

Viktor Gísli Hallgrímsson fagnaði sigri með Barcelona gegn Wisla Plock, 30-24, í Meistaradeild Evrópu í handbolta í kvöld. Félagi hans úr landsliðinu, Orri Freyr Þorkelsson, varð hins vegar að sætta sig við naumt tap með Sporting gegn Füchse Berlín, 38-37 í Portúgal.

Daninn magnaði Mathias Gidsel, besti handboltamaður heims síðustu ár, reyndist Orra og félögum sérstaklega erfiður í kvöld.

Gidsel skoraði nefnilega heil þrettán mörk og þar á meðal tvö síðustu mörk gestanna, eftir að Sporting hafði verið nálægt því að jafna metin.

Sigur Viktors Gísla og félaga var öllu öruggari en staðan á Spáni var þó enn jöfn í hálfleik, 12-12. Börsungar komust svo í 20-14 og hleyptu gestunum frá Póllandi, gömlu samherjunum hans Viktors, aldrei nálægt sér eftir það.

Danski markvörðurinn Emil Nielsen var í aðalhlutverki í kvöld og varði 15 skot, samkvæmt Mundo Deportivo, og var með 42% markvörslu en Viktor Gísli kom líka inn á og varði tvö víti samkvæmt lýsingu miðilsins.

Þess má geta að þeir Jónas Elíasson og Anton Gylfi Pálsson dæmdu leikinn á Spáni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×