Handbolti

„Skrýtið að spila þennan leik“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Elín Rósa í leik kvöldsins.
Elín Rósa í leik kvöldsins. Vísir/Anton Brink

Elín Rósa Magnúsdóttir, leikmaður Blomberg-Lippe, segir það hafa verið skrýtna tilfinningu að mæta sínu gamla félagi í Evrópudeildinni í handbolta í kvöld.

Elín Rósa lék með Blomberg-Lippe er liðið heimsótti Val í þriðju umferð forkeppni Evrópudeildarinnar í kvöld.

Leiknum lauk með 22-22 jafntefli, en Blomberg-Lippe vann fyrri leik liðanna með þrettán marka mun og er því á leið í riðlakeppni Evrópudeildarinnar á kostnað Vals.

„Það var mjög skrýtið að spila þennan leik. Ég veit ekki alveg hvernig mér á að líða og hvernig mér leið í leiknum, en það er alltaf gaman að koma heim á Hlíðarenda,“ sagði Elín Rósa í leikslok.

Hún viðurkennir að mögulega hafi kæruleysi komið yfir Blomberg-Lippe fyrir leik kvöldsins eftir þrettán marka sigur í fyrri leiknum.

„Það var allavega þannig í dag. Það á ekkert að vera þannig, en við sýndum bara ekki nógu góða spilamennsku í dag. Svona er þetta bara.“

Hún hrósar þó Valsliðinu fyrir að sýna góðan karakter og snúa dæminu við eftir að hafa lent fimm mörkum undir í fyrri hálfleik.

„Þær eru með frábæra leikmenn og ég náttúrulega veit það best af öllum hérna. Það er kannski erfitt að mótivera þær þegar við vinnum með þrettán á heimavelli. En það er bara geggjað að spila á móti þeim og þær eru með eitt af bestu liðunum hérna á Íslandi.“

„Þær eru bara að taka næsta skref með því að taka þátt í þessari keppni. Nú eru þær að spila á móti liðum, eins og okkur, úr þýsku Bundesligunni. Það er góð reynsla fyrir lið hérna heima að taka þátt í Evrópukeppni, hvort sem það er í Evrópubikarnum eða Evrópudeildinni. Þetta er frábært skref fyrir þær að fara í Evrópudeildina núna,“ sagði Elín Rósa að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×