Skoðun

Ís­land slítur sig frá þriggja ára­tuga nor­rænu mennta­sam­starfi

Fyrrum UWC nemar skrifar

Fyrir þrjátíu árum opnaði alþjóðlegi menntaskólinn United World College Red Cross Nordic (UWC RCN) í Flekke í Noregi dyr sínar með þann draum að verða leiðandi menntastofnun á heimsvísu. Markmiðið var að skapa vettvang á Norðurlöndunum þar sem ungmenni hvaðanæva úr heiminum kæmu saman til að lifa, læra og þroskast – á grundvelli þeirrar hugsjónar að menntun sé afl til friðar og sjálfbærrar framtíðar. Í dag stunda 200 nemendur nám við skólann frá um 90 löndum og á þeim tíma sem liðinn er frá stofnun skólans hafa um 3000 nemendur útskrifast úr skólanum. Hingað til hafa íslenskir nemar geta stundað nám við skólann með skólastyrk frá íslenska ríkinu en ný ríkisstjórn ákvað í vor að draga Ísland út úr þessu þriggja áratuga norræna menntasamstarfi. Það eru mikil vonbrigði fyrir íslensk ungmenni og skref út úr norrænu menntasamstarfi.

Norrænt samstarfsverkefni sem Ísland er stofnaðili að

Stofnun UWC Red Cross Nordic (UWC RCN) var afrakstur sameiginlegrar ákvörðunar Norðurlandanna eftir umræður um opnun skólans á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs á níunda áratugnum. Árið 1990 voru skipaðar undirbúningsnefndir í öllum Norðurlöndunum. Í íslensku nefndinni sátu dr. Gylfi Þ. Gíslason, fyrrum ráðherra og prófessor, Jakobína Þórðardóttir, fyrrum alþjóðadeildarstjóri Rauða krossins á Íslandi og Karl Kristjánsson, fyrrum deildarsérfræðingur í menntamálaráðuneytinu. Þáverandi menntamálaráðherra, Svavar Gestsson, staðfesti árið 1991 þátttöku Íslands í verkefninu með því að skuldbinda Ísland til að fjármagna skólastyrki fyrir íslenska nemendur. Frá fyrsta degi hefur Ísland verið virkur þátttakandi í starfi skólans og tekið þátt í fjármögnun hans með skólastyrkjum til íslenskra nemenda. Íslendingar hafa setið í stjórn og skólaráði skólans og jafnvel gegnt starfi rektors. Mikilvægasti þátturinn hefur þó alltaf verið sá að íslenskir nemendur hafa fengið tækifæri til þess að stunda nám við skólann. Stofnun skólans var meðvituð pólitísk ákvörðun stjórnvalda á sínum tíma um að Ísland væri hluti af norrænu menntasamstarfi sem byggir á grunngildum Norðurlandanna - friði, jafnrétti og lýðræði, ásamt því að vinna náið með Rauða krossinum sem einnig kom að stofnun skólans. Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að hætta styrkveitingum er þannig í andstöðu við það sem ríkisstjórnir allra flokka hafa stutt allar götur frá stofnun skólans.

Hluti af alþjóðlegri skólahreyfingu

Stofnandi United World College skólahreyfingarinnar, Kurt Hahn, var gyðingur og hafði upplifað heiminn skiptast í fylkingar í hræðilegum átökum seinni heimsstyrjaldarinnar. Kurt trúði því að leiðin til þess að fyrirbyggja að mistök fortíðarinnar endurtaki sig væri að ungmenni á mótunarárum sínum kæmu saman frá ólíkum stöðum í heiminum, óháð efnahagsstöðu, trú eða kynþætti, til að búa og læra saman. Þannig myndu þau læra að hlusta, takast á við ólíkar skoðanir og lífsviðhorf og byggja brýr yfir menningarlegar og pólitískar gjár. Árið 1962 stofnaði hann UWC skólahreyfinguna í Wales með það að leiðarljósi að nota menntun sem afl til að sameina fólk, þjóðir og menningu fyrir frið og sjálfbæra framtíð. Það verkefni er brýnna nú en nokkru sinni fyrr, þegar stríð geisa í Evrópu á ný og átök og öfgar vaxa víða um heim. Í dag eru 18 UWC skólar og hver og einn þeirra er með sína sérstöðu. Starf UWC hefur á heimsvísu vakið slíka athygli að hreyfingin hefur verið tilnefnd til friðarverðlauna Nóbels.

Ekki bara draumsýn

Eðlilegt er að hugsa hlýlega til síns gamla skóla. Sannleikskorn fylgir þeirri staðhæfingu, en UWC er engin venjuleg skólahreyfing. Hvar annars staðar sérðu Palestínumenn og Ísraela vinna saman að kynningu um Miðausturlönd eða Úkraínumenn og Rússa læra norska þjóðdansa saman? Nemendahópurinn er eins og heimurinn í hnotskurn. Hann samanstendur af ungu fólki fólki frá öllum heimshornum, sem trúa á ólík trúarbrögð eða eru trúlaus og koma úr fjölbreyttum félags- og efnahagslegum aðstæðum. Sum þeirra hafa jafnvel alist upp í SOS barnaþorpum eða flúið ofsóknir eða stríð í heimalöndum sínum.

Að búa í því umhverfi hefur mótandi áhrif útaf fyrir sig. Tveggja ára nám í heimavistarskóla með 200 nemendum frá um 90 löndum skapar skilning sem engin skólastofa getur kennt. Auðvitað gátu stundum komið upp menningarárekstrar en maður lærir fljótt að leysa úr þeim og í þeim efnum er samtalið okkar sterkasta tól. Mesti lærdómurinn er kannski sá að einblína á það sem sameinar okkur frekar en það sem sundrar. Ungt fólk hefur nefnilega jafn mikinn eða jafn lítinn áhuga á því að spila fótbolta, óháð því hvaðan það kemur. Fegurð UWC er að átta sig á því að uppruni eða trú fólks er ekki það sem mestu máli skiptir heldur manngæska þess. Rétt eins og stofnandi UWC, Kurt Hahn, sá fyrir sér.

Mennt er máttur - og fjárfesting til framtíðar

Í UWC RCN fá nemendur menntun í alþjóðlegu umhverfi þar sem lögð er sérstök áhersla á leiðtogahæfni og samfélagslega ábyrgð. Í gegnum sérstaka áherslu skólans á mannúð og samstarf hans við Rauða krossinn læra nemar um mikilvægi þess að gefa til baka til samfélagsins, að hugsa um heimsmyndina en jafnframt að grípa til aðgerða í heimabyggð. Þessi fjárfesting skilar sér margfalt til baka með íslenskum UWC-nemum sem koma heim með víðsýni, djúpan skilning á alþjóðlegum áskorunum og getu til að vinna að lausnum á samfélagslegum verkefnum hér á landi. Þeir verða leiðtogar framtíðarinnar í ýmsum geirum samfélagsins, hvort sem það er í stjórnmálum, vísindum, listum eða mannúðarmálum, og vinna að framþróun samfélagsins með skýr gildi UWC hreyfingarinnar að leiðarljósi.

Sonja drottning Noregs hefur verið verndari skólans frá upphafi og sinnt því hlutverki af festu og ræktarsemi. Hún hefur alla tíð trúað því að mikilvægt sé að leiða ungmenni víða að saman til að brjóta niður menningarmúra og stuðla þannig að friði og sjálfbærri framtíð. Að loknu námi flytja nemendur áfram norræna jafnréttis- og lýðræðishugsjón út á alþjóðavettvang og verða að öflum breytinga þegar þeir takast á við sammannleg viðfangsefni á sínum heimavelli.

David Sengeh, æðsti ráðherra Sierra Leone, er eitt af fjölmörgum dæmum um fyrrum UWC-nemendur sem hafa haft víðtæk áhrif. Að loknu námi við UWC hélt hann í framhaldsnám við Harvard og MIT. Hann ólst upp í samfélagi þar sem afleiðingar borgarastyrjaldar voru daglegur veruleiki og helgaði því námi sínu í þróun gerviútlima fyrir þolendur átaka. Fyrir þá vinnu hefur hann hlotið verðlaun á sviði velferðartækni og árið 2014 var hann valinn á lista Forbes „30 under 30“ yfir framúrskarandi ungt fólk á heimsvísu. Árið 2023 var hann skipaður æðsti ráðherra Sierra Leone. Mark Wang, ötull baráttumaður fyrir réttindum fatlaðs fólks í Kína, er annað dæmi. Hann lenti í flugslysi sem barn og lamaðist fyrir neðan mitti. Áður en hann fékk skólastyrk til að stunda nám við UWC bjó hann á endurhæfingarstöð í Kína. Eftir námið sneri hann aftur heim og stofnaði þar UWC-skóla sem hefur opnað dyr að alþjóðlegri menntun fyrir hundruð ungmenna. Í gegnum dvöl hans í Noregi kynntist hann jafnframt réttindum fatlaðs fólks á Norðurlöndunum sem varð innblástur í baráttu hans fyrir bættum réttindum í Kína. Sögur Davids og Marks eru aðeins tvö dæmi af mörgum. Þær sýna hvernig UWC breytir ekki aðeins lífi einstaklinga heldur hvernig fyrrum nemendur hafa látið gott af sér leiða í samfélögum sínum um allan heim.

Drögum ekki úr tækifærum

Við undirrituð, fyrrverandi nemendur sem nutum stuðnings íslenska ríkisins til að stunda nám við UWC, lýsum yfir þungum áhyggjum af ákvörðun stjórnvalda um að hætta að veita íslenskum nemendum styrki til náms við UWC. Ákvörðunin takmarkar tækifæri íslenskra ungmenna til að stunda nám í alþjóðlegu umhverfi. Á tímum þegar stríð geisa og samfélagsmiðlar magna upp bergmálshella er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að skapa aðstæður þar sem ungt fólk lærir að eiga í samskiptum þvert á menningarlegan og trúarlegan bakgrunn. Slík reynsla eflir gagnrýna hugsun, eykur víðsýni og stuðlar að umburðarlyndi og ábyrgri þátttöku í alþjóðlegu samfélagi.

Frá því í mars höfum við ítrekað óskað eftir fundi með Menntamálaráðherra vegna ákvörðunarinnar, án árangurs. Á tyllidögum tala þingmenn um mikilvægi norræns samstarfs, ungmennaskipta og alþjóðlegra samskipta. Það er fjallað um frið, víðsýni og mikilvægi þess að ungt fólk fái tækifæri til að læra í alþjóðlegu umhverfi. Þau orð virðast þó innantóm því ákvörðunin um að hætta að veita styrki til UWC felur í reynd í sér að Ísland er að draga sig út úr norrænu mennta- og friðarsamstarfi sem það er stofnaðili að. Það dregur úr tækifærum íslenskra ungmenna til að stunda nám við UWC og er skref aftur á bak fyrir ungt fólk og alþjóðlega samvinnu Íslands. Bæði Færeyjar og Grænland, sem eru töluvert fámennari samfélög en Ísland, halda áfram að veita skólastyrki til náms við UWC. Þau skilja að alþjóðleg menntun er fjárfesting til framtíðar. Er Ísland í alvöru eina norræna þjóðin sem telur að unga fólkið sitt eigi ekki að fá tækifæri til slíkrar menntunar?

Við erum ævinlega þakklát öllum þeim, nemendum, starfsfólki, stjórnvöldum og vinum skólans, sem hafa byggt UWC RCN upp síðustu 30 árin og gert skólann að því sem hann er í dag. Við skorum á íslensk stjórnvöld að endurskoða ákvörðun sína svo íslensk ungmenni geti áfram átt tækifæri til þess að stunda nám við skólann og tekið þátt í að móta næstu 30 ár í sögu hans.

Guðbjörg Andrésdóttir, yfirlæknir (UWC RCN ‘95-’97)

Tinna Rán Ægisdóttir, yfirlyfjafræðingur (UWC RCN ‘97-‘99)

Sunna Viðarsdóttir, verkfræðingur (UWC RCN ‘98-'99)

Bjarki Bragason, myndlistarmaður og deildarforseti við Listaháskóla Íslands (UWC RCN ‘00-‘02)

Sigrún Birta Sigurðardóttir, grunnskólakennari (LPC UWC ‘01-‘03)

Anna Kristín Tumadóttir, stjórnmálafræðingur (UWC RCN ‘01-‘03)

Sigríður Jónsdóttir, sviðslistasérfræðingur og leikhúsgagnrýnandi (LPC UWC ‘02-’04)

Margrét Silja Þorkelsdóttir, verkfræðingur og fulltrúi í skólaráði UWC RCN (UWC RCN ‘02-‘04)

Kristín Una Sigurðardóttir, skipulagsfræðingur (UWC RCN ‘04-’06)

Ragnhildur Lára Weisshappel, myndlistarmaður og verkefnastjóri Menningarhússins Bergs (UWC RCN ‘06-‘08)

Ingvi Aron Þorkelsson, verkfræðingur (UWC RCN ‘07-’09)

Rán Þórisdóttir, lögfræðingur (UWC RCN ‘12-’14)

Hjalti Björn Hrafnkelsson, forseti Sambands íslenskra nemenda erlendis (UWC ‘13-‘15)

Anna Margrét Sverrisdóttir, verkefnastjóri Asylee Women Enterprise (UWC RCN ‘14-’16)

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi og meðlimur í stjórn UWC RCN (UWC RCN ‘15-‘17)

Ríkharður Eyjólfsson, kvikmyndanemi (UWC RCN ‘16-‘18)

Þorbjörg Arna Sigrúnardóttir Jónasdóttir, alþjóðafræðingur (UWC RCN ‘17-‘19)

Kristín Sesselja Einarsdóttir, tónlistarkona og enskufræðingur (UWC RCN ‘18-‘20)

Elínborg Una Einarsdóttir, sviðshöfundur og blaðamaður (UWC RCN ´19 -´21)

Unndís Ida Ingvarsdóttir, kvikmyndanemi (UWC RCN ‘21-‘23)

Kolbrún Garðarsdóttir, líffræðinemi, (UWC RCN ‘22-‘24)

Berglind Anna Magnúsdóttir (UWC RCN ‘23-’25)




Skoðun

Skoðun

Skelin

Guðmundur Ingi Þóroddsson skrifar

Sjá meira


×