Innlent

Tvö og hálft ár í fangelsi fyrir hraðbankaþjófnað og Hamra­borgar­málið

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Hrannar hafði játað að hafa stolið hraðbankanum og að vera annar þeirra sem stal peningunum í Hamraborg. 
Hrannar hafði játað að hafa stolið hraðbankanum og að vera annar þeirra sem stal peningunum í Hamraborg.  Vísir

Hrannar Markússon var í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir aðild sína að tveimur af umfangsmestu þjófnaðarmálum Íslandssögunnar. Annars vegar fyrir þjófnað á hraðbanka í Mosfellsbæ fyrr á árinu og hins vegar Hamraborgarmálið svokallaða. Þá er Hrannar jafnframt sviptur ökuréttindum og til greiðslu þriggja milljóna króna í skaðabætur. Þá hlaut kona sex mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm vegna aðildar að hraðbankaþjófnaðinum.

Þetta staðfestir lögmaður Hrannars í samtali við Vísi en Rúv greindi fyrst frá dómnum sem enn hefur ekki verið birtur. 

Líkt og Vísir greindi frá í gær hafði Hrannar, sem er á fimmtugsaldri, játað aðild að tveimur af umfangsmestu þjófnaðarmálum Íslandssögunnar auk þess að vera grunaður um fjölda afbrota til viðbótar. Hrannar var ákærður fyrir bæði þjófnaðarmálin sem og önnur brot en Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður Hrannars, segir ekki liggja fyrir að svo stöddu hvort dómnum verði áfrýjað.

Dóminn hlýtur Hrannar meðal annars fyrir þjófnað á hraðbanka í Mosfellsbæ í ágúst síðastliðnum. Fram kom í fréttum af málinu að hann hafi verið grunaður um að hafa stolið gröfu og ekið að nóttu til að þjónustukjarna í Þverholti þar sem Íslandsbanki er til húsa og stolið hraðbankanum svo gott sem í heilu lagi úr byggingunni með hjálp vinnuvélarinnar. Töluverðar skemmdir voru á byggingunni eftir verknaðinn.

Þá hafði Hrannar einnig játað aðild að Hamraborgarmálinu svokallaða, þar sem tugum milljóna króna, ávinningi úr spilakössum, var stolið úr bíl öryggisfyrirtækis við Hamraborg í mars í fyrra. Myndefni úr öryggismyndavél sýndi tvo menn bakka eigin smábíl upp að öryggisbílnum, stela peningnum, og aka á brott, allt meðan öryggisverðir voru inni á Catalinu í Kópavogi að sækja pening úr spilakössunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×