Handbolti

„Vorum orðnir súrir á löppunum“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Andri Snær Stefánsson og strákarnir hans eru áfram í 4. sæti Olís-deildarinnar.
Andri Snær Stefánsson og strákarnir hans eru áfram í 4. sæti Olís-deildarinnar. vísir/vilhelm

Þrátt fyrir tapið fyrir Haukum var Andri Snær Stefánsson, þjálfari KA, lengst af sáttur með leik sinna manna.

KA leiddi með tveimur mörkum í hálfleik, 17-19, og var fetinu framar í upphafi seinni hálfleiks. En um miðbik hans fór mistökunum að fjölga hjá Akureyringum og Hafnfirðingar gengu á lagið.

„Við fengum á okkur tvö klaufaleg mörk í tómt markið sem kom þeim á bragðið. Við misstum dampinn og vorum orðnir súrir á löppunum,“ sagði Andri í samtali við Vísi eftir leikinn.

„Þeir skoruðu svolítið mikið af samskonar mörkum sem ég er svekktur að hafa ekki náð að skrúfa fyrir. Við eigum að gera betur í vörninni. Það er alltof mikið að fá á sig 42 mörk. Þú vinnur ekki leik þannig.“

Haukar spiluðu á talsvert fleiri leikmönnum í kvöld og Andri viðurkenndi að það gæti hafa spilað inn í.

„Eflaust. Við vorum með okkar bardagamenn í þessum leik. Það er engin afsökun en tveir af okkar lykilpóstum í vörninni voru ekki með. En við erum með liðsheildina, gerðum vel á löngum köflum og vorum tveimur mörkum yfir í hálfleik þannig að það er engin afsökun. Við héldum allavega ekki í við Hauka. Það er alveg ljóst,“ sagði Andri.

Hann kvaðst mjög sáttur með sóknarleik KA enda skoruðu Akureyringar 38 mörk á heimavelli toppliðs deildarinnar.

„Mér fannst við gera þetta ofboðslega vel í fyrri hálfleik. Við vorum frábærir í sókn,“ sagði Andri.

„Haukarnir eru með frábært lið og það þarf að eiga toppleik til að vinna þá. Við vorum góðir 85 prósent af leiknum en það er ekki bara ekki nóg.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×