Innlent

Tjáir sig um sím­talið marg­fræga: Telur víst að Inga hafi beitt á­hrifum sínum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ársæll Guðmundsson skólastjóri og Inga Sæland ráðherra.
Ársæll Guðmundsson skólastjóri og Inga Sæland ráðherra.

„Inga hringdi í janúar, ég fékk bara símann frá skiptiborðinu, og hún var ekki í neinu jafnvægi; byrjaði strax að hella sér yfir mig, ákaflega reið og bókstaflega öskraði í símann að það væri búið að stela glænýjum Nike-skóm af barnabarninu.“

Þannig lýsir Ársæll Guðmundsson, skólameistari Borgarholtsskóla, símtali sínu við Ingu Sæland, formann Flokks fólksins og félags- og húsnæðismálaráðherra, sem átti sér stað í ársbyrjun. Ársæll tjáði sig um samtalið í viðtali við Morgunblaðið, þar sem hann sakar Ingu um að hafa beitt sér fyrir því að skipunartími hans sem skólastjóra við Borgarholtsskóla hafi ekki verið framlengdur.

Greint var frá því á dögunum að Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra og þingmaður Flokks fólksins, hefði ákveðið að auglýsa stöðuna.

Ársæll segir í samtali við Morgunblaðið að hann hafi hingað til ákveðið að tjá sig ekki um símtal hans og Ingu, sem hringdi í hann eftir að skóm barnabarns hennar var stolið í skólanum. „Hins vegar hef ég þurft að sitja undir lyginni í Ingu Sæland endalaust og ákvað að láta það yfir mig ganga. En hún getur bersýnilega ekki hætt,“ segir Ársæll.

Hann segir Ingu meðal annars hafa kallað starfsmenn skólans „letihauga“ fyrir að hafa ekki fundið skóna og nemendurna „þjófa“. Þá hafi hún hótað að hafa samband við lögreglu, sem hann sagði sjálfsagt mál. „Og þá segir hún þessa fleygu setningu við mig: „Já, það er nú lítið mál fyrir mig núna því að ég hef svo mikil ítök í lögreglunni“.“

Seinna hafi komið í ljós að skónum var alls ekki stolið, heldur höfðu þeir verið settir í ranga hillu og komið í leitirnar á endanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×