Enski boltinn

Scholes segir fé­lagið eyði­leggja Mainoo

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Einu myndirnar af Kobbie Mainoo með Manchester United þessa dagana eru af honum í utanyfirgallanum.
Einu myndirnar af Kobbie Mainoo með Manchester United þessa dagana eru af honum í utanyfirgallanum. Getty/Ash Donelon

Paul Scholes er ævareiður vegna þess að miðjumaðurinn Kobbie Mainoo fær ekki að spila hjá Ruben Amorim, þjálfara United.

Það er sama hvaða leikmenn vantar í lið United, aldrei finnur Amorim pláss fyrir enska miðjumanninn sem einhverjir spáðu að yrði framtíðarmiðjumaður félagsins þegar hann kom ungur inn í liðið.

Scholes er ellefufaldur Englandsmeistari með Manchester United og lék yfir sjö hundruð leiki fyrir félagið. Hann er einn af þeim sem eru hneykslaðir á þróun mála með Mainoo og þjálfara hans.

„Það er verið að eyðileggja strákinn með því að nota hann ekki í liði sem getur ekki stjórnað fótboltaleik,“ skrifaði Paul Scholes í Instagram-færslu sem hann hefur síðan eytt.

Þessi tvítugi leikmaður hefur aðeins byrjað einn leik á þessu tímabili. Það var í niðurlægjandi tapi gegn Grimsby Town úr 4. deild í deildabikarnum. Í ensku úrvalsdeildinni hefur hann aðeins spilað 171 mínútu í níu leikjum, allt sem varamaður.

„Ég hata að sjá uppalda leikmenn fara, en það er líklega best fyrir hann núna. Nóg er komið,“ skrifaði Scholes enn fremur.

Goðsögnin var sjálfur alinn upp hjá United og var allan sinn feril á Old Trafford.

Eftir leikinn gegn West Ham á fimmtudaginn var Amorim spurður hvort hætta væri á að Mainoo missti móðinn eftir enn einn leikinn á bekknum.

„Ég skil hvað þið eruð að segja. Þið elskið Kobbie. Hann byrjar inn á fyrir England, en það þýðir ekki að ég verði að setja hann inn á þegar mér finnst ég ekki eiga að gera það. Það er mín ákvörðun,“ svaraði Portúgalinn Ruben Amorim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×