Körfubolti

„Get ekki verið fúll út í mína menn“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Borche Ilievski hefði viljað sjá sína menn spila aðeins betri varnarleik gegn KR.
Borche Ilievski hefði viljað sjá sína menn spila aðeins betri varnarleik gegn KR. vísir/diego

Þrátt fyrir tap fyrir KR í Vesturbænum, 102-96, í Bónus deild karla í kvöld var Borche Ilievski, þjálfari ÍR, sáttur með framlag sinna manna í leiknum.

ÍR lenti mest fimmtán stigum undir en kom með kröftugt áhlaup og minnkaði muninn í þrjú stig. En lengra komust Breiðhyltingar ekki.

„Við fengum nokkur tækifæri til að jafna en töpuðum boltanum klaufalega. Síðan komst KR tíu stigum yfir og þá var erfitt að koma aftur til baka. En við reyndum klárlega, gerðum okkar besta og ég virði það sem mínir menn gerðu. Þeir börðust allt til loka,“ sagði Borche í samtali við Vísi í leikslok.

„Okkur vantaði orku á stóru augnablikunum en ég er stoltur af því hvernig mínir menn börðust allan leikinn. Við þurfum að læra af þessu, sérstaklega hvað vörnina varðar. Það er of mikið að fá á sig hundrað stig. En framlagið var til staðar og ég get ekki verið fúll út í mína menn.“

Borche finnst sem ÍR-ingar séu á réttri leið og að taka skref fram á við.

„Klárlega. Leikurinn var jafn og við hefðum getað jafnað og þá hefði leikurinn getað farið í aðra átt. En þetta er lifandi leikur, körfubolti og KR spilaði vel. Það var svolítið um misskilning í vörninni en leikmennirnir mínir lögðu sig alla í þetta,“ sagði Borche að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×