Erlent

Skapari Call of Duty lést í bíl­slysi

Atli Ísleifsson skrifar
Vince Zampella á viðburði í Los Angeles fyrr í mánuðinum.
Vince Zampella á viðburði í Los Angeles fyrr í mánuðinum. EPA

Vince Zampella, einn skapara hinna vinsælu Call of Duty-tölvuleikja, er látinn eftir að hafa lent í bílslysi í Kaliforníu í Bandaríkjunum á sunnudag. Hann varð 55 ára.

Tölvuleikjafyrirtækið Electronic Arts, sem á Respawn Entertainment sem Zampalla stofnaði, staðfesti andlát Zampella.

BBC segir frá því að Zampella hafi verið að keyra í Ferrari-bíl ásamt öðrum þegar bíllinn lenti á steyputálma og varð alelda á hraðbraut í Los Angeles. Fram kemur að farþeginn í bílnum hafi kastast úr bílnum en að bílstjórinn hafi verið fastur en óljóst er hvort að Zampella hafi ekið bílnum eða verið farþegi. Báðir létust í slysinu.

Zampella skapaði tölvuleikinn Call of Duty ásamt samstarfsmönnum sínum til fjölda ára, þeim Jason West og Grant Collier, árið 2003. Leikurinn, sem sækir innblástur í atburði í seinni heimsstyrjöldinni, hefur selst í rúmlega 500 milljónum eintaka og er hann einn tekjuhæsti tölvuleikur sögunnar.

Zampella átti einnig þátt í að skapa aðra leiki á borð við Medal of Honor, Titanfall og Apex Legend.

Þeir Zampella og West voru reknir frá Activision, sem gefur út Call of Duty-leikina, árið 2010. Tóku þá við deilur sem rötuðu fyrir dómstóla en sátt náðist árið 2012.

Zampella starfaði hjá Electronic Arts þar sem hann vann að leiknum Battlefield 6, sem margir líta á sem að sé í beinni samkeppni við Call of Duty.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×