Körfubolti

Jókerinn með tölvuleikjatölfræði á jóla­dag

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Nikola Jokic var óstöðvandi í jólaleiknum.
Nikola Jokic var óstöðvandi í jólaleiknum. AAron Ontiveroz/The Denver Post

Margir eyða jólunum í tölvuleikjaspil og afslöppun en Nikola Jokic slær ekki slöku við og náði tölfræði sem hingað til hefur bara sést í tölvuleikjum, í 142-138 sigri Denver Nuggets gegn Minnesota Timberwolves í framlengdum leik.

Jókerinn skoraði 56 stig, greip 16 fráköst, gaf 15 stoðsendingar og varði 2 skot.

Hann varð þar með fyrsti leikmaðurinn í sögu NBA deildarinnar til að skora meira en fimmtíu og fimm stig, grípa fimmtán fráköst og gefa fimmtán stoðsendingar.

Hann varð líka þriðji stigahæsti leikmaður í sögu jólaleikja NBA en aðeins Bernard King (60 stig árið 1984) og Wilt Chamberlain (59 stig árið 1961) hafa skorað meira á jóladag.

Jokic skoraði 18 af sínum 56 stigum í framlengingunni og sló þar með met Stephen Curry sem skoraði einu sinni 17 stig í framlengingu.

Frábær leikur Jokic leiddi Nuggets til sigurs en liðið saknaði þriggja byrjunarliðsmanna.

Leikstjórnandinn Jamal Murray lagði líka sitt af mörkum og skoraði 35 stig. Hann háði harða baráttu við leikstjórnanda Úlfanna, Anthony Edwards, sem skoraði 44 stig en var rekinn úr húsi í framlengingunni fyrir að þræta við dómara.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×