Innlent

Karó­lína Helga býður sig fram gegn sitjandi odd­vita

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Karolína Helga vill verða oddviti Viðreisnar í Hafnarfirði.
Karolína Helga vill verða oddviti Viðreisnar í Hafnarfirði.

Karolína Helga Símonardóttir varaþingmaður Viðreisnar hefur ákveðið að gefa kost á sér til að leiða lista flokksins í Hafnarfirði í sveitarstjórnarkosningum í vor og því boðað framboð gegn sitjandi oddvita, Jóni Inga Hákonarsyni.

Þetta kemur fram í tilkynningu. „Eftir að hafa verið viðloðandi bæjarmálin í Hafnarfirði í meira en áratug þá hef ég ákveðið að ég vil leiða lista Viðreisnar í Hafnarfirði í næstu sveitarstjórnarkosningum. Hef því boðið mig fram í prófkjör flokksins sem fer fram 17. janúar næstkomandi,“ skrifar Karolína Helga.

Hún segir þetta segja margt um sig, hún læri, hlusti og ígrundi áður en hún stökkvi af stað. Hún segist leggja mikið upp úr mennskunni, samtali og að taka ákvarðanir á ábyrgan og gagnsæjan hátt með almannahagsmuni að leiðarljósi.

„Hafnarfjörður er ekki bara stjórnsýslueining, hann er samfélag. Sjávarþorp með sterka sjálfsmynd, þar sem fólk heilsast á götu, spjallar saman í heitapottinum og stendur saman þegar á reynir. Þessa sérstöðu eigum við að vernda, en líka byggja ofan á með skýrri sýn og ábyrgri forystu.“

Hún segist bjóða sig fram vegna þess að hún trúi því að Hafnarfjörður eigi meira inni. Með gagnsæi, ábyrgum fjármálum og samstarfi þvert á flokka sé hægt að bæta þjónustu, einfalda kerfin og tryggja sjálfbæran rekstur til framtíðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×