Viðskipti innlent

Icelandair setur nokkur met

Samúel Karl Ólason skrifar
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair. Vísir/Anton

Icelandair hefur aldrei flutt fleiri farþega en á síðasta ári en í heildina var fjöldinn um 5,1 milljónu og er það átta prósentum meira en árið 2024. Þá var desember stærsti desembermánuðurinn í sögu Icelandair en þá flutti flugfélagið 344 þúsund farþega.

Í tilkynningu frá félaginu segir að aukningin í desember hafi verið tíu prósent, samanborið við desember í fyrra. Þá hafi 27 prósent farþeganna verið á leið til Íslands, tuttugu prósent á leið frá Íslandi.

Þar segir einnig að stundvísi hafi verið 80,1 prósent í desember og það sé framúrskarandi niðurstaða. Í desember í fyrra hafi stundvísin verið 59,7 prósent. Stundvísi jókst einnig fyrir árið í heild en hún var 83,9% samanborið við 82,7% árið 2024.

Icelandair setti einnig met þegar kemur að sætanýtingu í desember en hún var 84,1 prósent.

Kolefnislosun á hvern tonnkílómetra dróst saman um 6%, vegna hærra hlutfalls eyðslugrennri flugvéla í flotanum og góðrar sætanýtingar.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir þessa niðurstöðu vera árangur sameiginlegs átaks starfsfólks.

„Desember var sá stærsti í sögu okkar og einnig árið í heild en farþegafjöldinn fór í fyrsta sinn yfir fimm milljónir. Við lögðum áherslu á að auka framboð utan háannatíma til að hámarka nýtingu innviða og draga úr árstíðarsveiflu. Framúrskarandi stundvísi á árinu, 83,9%, setur okkur í hóp fremstu flugfélaga Evrópu. Þessi niðurstaða er árangur sameiginlegs átaks alls starfsfólks Icelandair.“

Uppfært: Síðasti desember var ekki stærsti mánuðurinn í sögu Icelandair, heldur stærsti desembermánuður í sögu félagsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×