Viðskipti innlent

Leita að nafni á farþegamiðstöð fyrir skemmti­ferða­skip

Lovísa Arnardóttir skrifar
Farþegamiðstöðin er við Viðeyjarsund.
Farþegamiðstöðin er við Viðeyjarsund. Faxaflóahafnir

Faxaflóahafnir leita til almennings um nafn á nýja fjölnota farþegamiðstöð í Reykjavík. Farþegamiðstöðin rís nú við Viðeyjarsund í Reykjavík og tekur á móti fyrstu farþegum skemmtiferðaskipa í vor. Farþegamiðstöðin er sú fyrsta sem opnar í Reykjavík í 60 ár. Vinningshafi hlýtur siglingu til Bretlandseyja.

Í tilkynningu kemur fram að utan annatíma skemmtiferðaskipa, frá október og út mars ár hvert, fái farþegamiðstöðin annað hlutverk sem vettvangur fyrir fjölbreytta viðburði og samkomur.

Hægt að skila tillögum til 1. febrúar

Í tilkynningu segir að Faxaflóahafnir leiti til almennings um nafn á húsið. Hægt sé að skila inn tillögum í gegnum vefsíðuna nafnasamkeppni.is fram til 1. febrúar.

„Við viljum að nafnið sé þjált, falli vel að íslenskri málhefð og sé ekki tungubrjótur fyrir þau sem tala önnur mál,“ segir í tilkynningunni.

Svona á miðstöðin að líta út. Faxaflóahafnir

Þar kemur einnig fram að farþegamiðstöðin marki ákveðin tímamót í móttöku skemmtiferðaskipa á Íslandi og muni leysa af hólmi tímabunda aðstöðu sem fyrir er á hafnarsvæðum Faxaflóahafna. Þá sé einnig um að ræða fyrstu farþegamiðstöðina sem opnar í Reykjavík frá því að Bifreiðastöð Íslands, BSÍ, opnaði árið 1965.

Samkvæmt tilkynningu hlýtur vinningshafi að launum siglingu fyrir tvo í skemmtiferðaskipti frá nýju farþegamiðstöðinni við Viðeyjarsund til Bretlands, dagana 2. til 12. júlí 2026, og flug til Íslands eftir siglinguna. Ferðin inniheldur glæsilegt herbergi með svölum og margvísleg fríðindi. Lagt er af stað frá nýju farþegamiðstöðinni í Reykjavík og komið verður við á Ísafirði, Akureyri, Maloy í Noregi, Lerwich á Hjaltlandseyjum, Inverness og Edinborg í Skotlandi áður en lagst er að bryggju í Southampton.

Vigdís Hafliðadóttir er formaður dómnefndar. Faxaflóahafnir

Dómnefnd samkeppninnar skipa Gunnar Tryggvason hafnarstjóri, Líf Magneudóttir stjórnarformaður Faxaflóahafna og Vigdís Hafliðadóttir, listamaður, heimspekingur, sjónvarpskona og textahöfundur, sem jafnframt er formaður dómnefndar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×