Handbolti

KA fær Dag aftur heim

Sindri Sverrisson skrifar
Dagur Gautason er mættur aftur í KA-heimilið.
Dagur Gautason er mættur aftur í KA-heimilið. KA

KA hefur borist gríðarlegur liðsstyrkur fyrir seinni hluta keppnistímabilsins í handbolta því hornamaðurinn Dagur Gautason er snúinn heim úr atvinnumennsku.

Dagur, sem er 25 ára gamall, er einn besti vinstri hornamaður landsins og er til að mynda í 35 manna hópnum sem Snorri Steinn Guðjónsson getur pikkað úr á meðan á Evrópumótinu stendur.

Hann skrifaði undir samning til eins og hálfs árs við KA.

Dagur steig sín fyrstu skref í meistaraflokki KA tímabilið 2017-2018 er KA hóf aftur að leika undir eigin merki. Hann var strax í lykilhlutverki í liðinu sem tryggði sér sæti í deild þeirra bestu og kemur inn í spennandi tímabil hjá KA-mönnum sem til að mynda eru komnir inn í undanúrslitin í bikarkeppninni og sitja í 5. sæti Olís-deildarinnar.

Dagur kemur til KA frá norska félaginu Arendal en þangað fór hann haustið 2023. Hann var valinn í úrvalslið norsku úrvalsdeildarinnar tímabilið 2023-24.

Seinni hluta síðustu leiktíðar var Dagur hjá franska stórliðinu Montpellier sem varð bikarmeistari og komst í úrslit í Evrópudeildinni.

Í tilkynningu KA er því fagnað mjög að félagið hafi endurheimt Dag. Þar segir: „Ekki nóg með að fá einn besta vinstri hornamann landsins aftur heim að þá er Dagur grjótharður KA-maður sem gefur sig allan fyrir félagið rétt eins og öll hans fjölskylda. Bræður Dags eru báðir í eldlínunni með KA en Logi leikur einnig í vinstra horni í handboltanum á meðan Kári er öflugur bakvörður í fótboltanum. Þá er systirin hún Ásdís efnileg í fótboltanum hjá Þór/KA auk þess sem foreldrarnir þau Gauti og Hafdís eru ómissandi í starfinu í kringum KA.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×