Erlent

Skutu flug­skeytum fyrir tólf milljarða á einni nóttu

Samúel Karl Ólason skrifar
Úkraínumenn notast meðal annars við F-16 herþotur til að skjóta niður stýriflaugar og dróna.
Úkraínumenn notast meðal annars við F-16 herþotur til að skjóta niður stýriflaugar og dróna. EPA/ROBIN VAN LONKHUIJSEN

Rússar gerðu í nótt umfangsmiklar árásir á orkukerfi Úkraínu þar sem notast var við 372 sjálfsprengidróna og skot- og stýriflaugar. Slíkar árásir hafa verið tíðar að undanförnu en Úkraínumenn eru að ganga í gegnum einn kaldasta veturinn á svæðinu í mörg ár.

Kuldinn hefur farið í tuttugu gráður í Kænugarði en þar urðu að minnsta kosti 5.600 rafmagns- og heitavatnslaus í morgun.

Í heildina eru Rússar sagðir hafa notað 339 dróna af ýmsum gerðum til árásanna, auk 18 skotflauga af gerðinni Iskander-M og fimmtán X-101 stýriflaugar, svo eitthvað sé nefnt.

Úkraínumenn segjast hafa skotið niður 315 dróna, 13 X-101 stýriflaugar og fjórtán Iskander-M.

Í samtali við blaðamenn í morgun sagði Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, að til að verjast árásum Rússa í nótt hafi Úkraínumenn notað flugskeyti fyrir um áttatíu milljónir evra. Það væri bæði erfitt að finna flugskeytin í loftvarnarkerfin og peningana fyrir þeim.

Áttatíu milljónir evra samsvara um 11,7 milljörðum króna.

Úkraínumenn hafa í vetur ítrekað kallað eftir fleiri loftvarnarkerfum og skotfærum fyrir þau kerfi.

Í færslu sem hann birti á samfélagsmiðlum sagði Selenskí að Rússar framleiði töluvert af skot- og stýriflaugum og það sýni að þeir hafi leiðir fram hjá viðskiptaþvingunum og refsiaðgerðum. Þær eigi að gera Rússum erfiðara að nálgast íhluti í eldflaugar og önnur nútímahergögn.

Frekari aðgerða væri þörf.

Hann segir einnig að ef Úkraínumenn hefðu ekki nýlega fengið sendingar af flugskeytum fyrir Patriot-loftvarnarkerfi og önnur, hefðu árásir næturinnar farið mun verr.


Tengdar fréttir

Býður Pútín sæti í „friðarráði“ fyrir Gasa­ströndina

Bandaríkjaforseti hefur boðið Vladímír Pútín, forseta Rússlands, sæti í svonefndu „friðarráði“ sínu um uppbyggingu Gasastrandarinnar. Ekki er ljóst hvort að sömu kröfur verði gerðar til Pútín og til annarra leiðtoga sem eru sagðir hafa fengið slíkt boð.

Hafa náð einu og hálfu prósenti af Úkraínu á þremur árum

Rússar hafa gert árásir á hvert einasta orkuver í Úkraínu og ítrekaðar árásir á aðra borgaralega innviði, á sama tíma og Úkraínumenn standa frammi fyrir einhverjum kaldasta vetri á svæðinu í árabil. Með því vilja Rússar draga máttinn úr úkraínsku þjóðinni til að verjast innrás þeirra en á undanförnum þremur árum hafa Rússar eingöngu lagt undir sig eitt og hálft prósent af Úkraínu.

Kennir Selenskí enn og aftur um

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segir að Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, standi í vegi friðar í Úkraínu en ekki Vladimír Pútín, forseti Rússlands. Trump heldur því fram að Pútín vilji binda enda á innrás sína í Úkraínu, sem hefur staðið yfir í tæp fjögur ár, en Selenskí vilji það ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×