Erlent

Sendi Evrópu tóninn: „Þú mótar ekki nýja heims­mynd með ein­tómum orðum“

Samúel Karl Ólason skrifar
Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, sagði Evrópu þurfa að breytast og það hratt.
Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, sagði Evrópu þurfa að breytast og það hratt. AP/Markus Schreiber

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, gagnrýndi ríki Evrópu og sagði ráðamenn heimsálfunnar skorta pólitískan vilja til að standa í hárinu á Vladimír Pútín, forseta Rússlands. Hann kallaði eftir alvöru aðgerðum frá Evrópu og aukinni samstöðu, svo eitthvað sé nefnt.

Í ræðu sem hann hélt á ráðstefnu Alþjóðaefnahagsráðsins í Davos í Sviss í dag benti Selenskí á að ári áður hefði hann haldið ræðu á sama stað þar sem hann kallaði eftir því að Evrópa lærði að verja sig sjálf. Síðan þá hefði ekkert gerst.

Forsetinn líkti ástandinu í Evrópu við myndina Groundhog Day, þar sem ekkert breyttist.

Hann sagði Evrópu ekki nægilega sterkt pólitískt afl og að ráðamenn virtust ráðvilltir. Heimsálfan hefði burði til að geta beitt sér og varið hagsmuni sína, með samvinnu, en breytinga væri þörf.

„Þú mótar ekki nýja heimsmynd með eintómum orðum.“

Selenskí vísaði sérstaklega til evrópskra stjórnmálamanna sem væru hliðhollir Rússlandi og þá sérstaklega til Viktors Orban, forsætisráðherra Ungverjalands.

Hann sagði að hver einasti „Viktor“ sem lifði á evrópskum peningum, á sama tíma og hann færi ítrekað gegn hagsmunum Evrópu, ætti refsingu skilda.

Skammaði Evrópu vegna skuggaflotans

Meðal annars talaði Selenskí um svokallaðan „skuggaflota“ Rússa. Það er stór floti flutningaskipa sem þeir og nokkur önnur ríki nota til að komast hjá viðskiptaþvingunum og refsiaðgerðum.

Sjá einnig: Svona virkar „skuggaflotinn“

Hann sagði að Bandaríkjamenn hefðu stöðvað þó nokkur slík skip en ríki Evrópu hefðu ekkert gert og spurði Selenskí af hverju ekki.

Fjölda skipa úr flotanum væri siglt undan ströndum Evrópu á degi hverjum en ekkert væri gert við þau. Olían sem þau fluttu væri notuð til að afla tekna fyrir rússneska ríkið og fjármagna stríðsrekstur Rússa í Úkraínu.

Selenskí sagði Rússa enn geta framleitt fjölda eldflauga þar sem þeir ættu auðvelt með að komast hjá refsiaðgerðum. Það væri ekki bara í Kína sem Rússar kæmu höndum yfir aðföng fyrir hergögn, heldur einnig í Evrópu, Bandaríkjunum og í Taívan.

„Evrópa segir ekkert. Bandaríkin segja ekkert og Pútín heldur áfram að framleiða eldflaugar.“

Þessar eldflaugar auk dróna eru Rússar að nota gegn orkuinnviðum í Úkraínu og hitaveitu en kuldi hefur verið mjög mikill á svæðinu.

Selenskí spurði í ræðu sinni hvort það yrði ekki ódýrara fyrir alla að koma í veg fyrir að Rússar hefðu aðgang að þessum íhlutum eða jafnvel gera árásir á verksmiðjurnar þar sem Rússar framleiða vopn sín.

Vísaði hann til þess að í fyrra fór fram mikil umræða hvort útvega ætti Úkraínumönnum langdræg vopn en nú sé ekki talað um það. Þrátt fyrir það bærist reglulega fjöldi eldflauga og dróna frá Rússlandi.

„Við vitum enn hvar þessar verksmiðjur eru. Þeir eru að miða á Úkraínu í dag en á morgun gæti það verið ríki í NATO.“

Í lok ræðu sinnar sagði Selenskí að ríki Evrópu þyrftu á sjálfstæðri Úkraínu að halda. Annars gæti Evrópa staðið frammi fyrir því að verja eigið frelsi og eigin lifnaðarhætti.

Sagði fundinn með Trump hafa gengið vel

Eftir að hann lauk ræðu sinni svaraði Selenskí nokkrum spurningum og var hann meðal annars spurður út í friðarviðræður og fund sinn með Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, fyrir ræðuna. Hann sagði fundinn hafa gengið vel.

Þegar kemur að friðarviðræðum sagði hann þær langt komnar en mjög erfiðar. Enn sem komið er hafa þessar viðræður þó nánast eingöngu verið milli Bandaríkjanna annars vegar og Úkraínu og ríkja Evrópu hins vegar. Jared Kushner og Steve Witkoff hafa fundað með Rússum í millitíðinni en það virðist litlum árangri hafa skilað.

Selenskí sagði að Rússar væru að missa um 35 þúsund hermenn á hverjum mánuði í Úkraínu og að Rússar ættu orðið erfitt með að fylla upp í raðir sínar.

Áhugasamir geta hlustað á ræðu Selenskís og svör hans við spurningum í kjölfarið í spilaranum hér að neðan. Hann tekur til máls eftir rétt rúmar nítján mínútur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×