Skoðun

Ó borg, mín borg

Eva Þorsteinsdóttir skrifar

Þetta fallega lag eftir Hauk Morthens kemur upp í hugann þegar ég hugsa um borgina mína. Höfuðborg landsins, Reykjavík.

En er þetta „borgin mín“ í þeim skilning að hún hugsi um velferð mína og þjónusti mig eins og skyldi?

Er hægt að ganga að því gefnu að grunnþjónusta við íbúa borgarinnar sé í forgangi þegar kemur að stjórnskipulagi Reykjavíkurborgar?

Nú held ég að flestir borgarbúar séu bara frekar einfaldir í hugsun þegar kemur að þessu, og ég þar meðtalin. Við viljum nefnilega bara að einfaldir hlutir séu ekki gerðir erfiðari fyrir okkur.

Nóg er á okkur lagt í þessu lífi að hugsa um þó að borgin ætlist ekki til þess að við förum að hafa áhyggjur af því sem við þurfum ekki. Flestir vilja bara borga sitt útsvar og ætlast til að grunnþjónustu sé framfylgt eins og lög gera ráð fyrir. Borgin á nefnilega að vinna fyrir okkur en ekki öfugt.

En gerir hún það?

Vetrarþjónusta: virðist vera ábótavant þar sem þegar snjóar er eins og ekki sé gert ráð fyrir að það geti gerst þrátt fyrir að við búum á Íslandi og það sé landlægur atburður. Alltaf er borgin jafn hissa þrátt fyrir veðurspár og fer seint og illa í verkið. Það sama má segja um hálku. Tugir manns þurfa að detta og brjóta sig á hverju ári því borgin fer of seint og illa í forvarnir. Hef líka orðið vör við það að svo sé brimsaltað þegar þurrt og hlýtt er úti eins og einhver verktakanna sé að losa sig við saltkvóta vetrarins.

Sumarþjónusta: garðsláttur eftir dúk og disk og sumstaðar látinn eiga sig í nafni “villtra svæða” eða “líffræðilegs fjölbreytileika”. Er ekki viss hvaða nafn þau nota um það, en gott og blessað.

Sorphirða: þarna vil ég ekki “líffræðilegan fjölbreytileika” í lífræna úrgangnum. Það getur verið hið vandasamasta mál að eiga sorp í Reykjavík. Spennan og óttinn við að labba að djúpgámunum og setja depilinn uppað og sjá hvort komi grænt eða rautt ljós jaðrar við ástand spilafíkils í Gullnámunni. Fæ ég að losa eður ei. Ef staðan er ei, þá þarf að ferja ruslið í Sorpu á bílnum (annað vandamál) því ekki er hægt að skilja rusl eftir á gangstéttum þar sem ég bý því þá koma mávarnir (gæti svosem flokkast undir sjálfbærni) og rífa það í sig.

Götur: ekki sópaðar eða rykbundnar þegar skyldi. Þess í stað er okkur sagt að halda okkur heima við, ekki nota bílinn og fundið til nýmæli sem kallast “svifryksdagar.” Vissulega geta komið dagar þar sem óeðlilega mikil mengun mælist á höfuðborgarsvæðinu og fólk hvatt til þess að halda sig innandyra. En við þurfum ekki að bæta við “svifryksdögum” vegna lélegrar umhirðu borgarinnar í þessum málum. Bílaþvottur annan hvern dag er heldur ekki gott fyrir umhverfið (skítugir bílar eru ljótir).

Samantekt: sópið, ryðjið, saltið, þrífið, sláið og takið ruslið reglulega. Ég veit að þetta eru ekki mjög „sexý“ störf en þetta er lögbundin grunnþjónusta við borgarbúa sem á að sinna vel.

Er það til of mikils mælst?

Höfundur býr í miðborginni og er í Miðflokknum.




Skoðun

Sjá meira


×