Sport

Meistarinn í krampa­kasti á Opna ástralska

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Jannik Sinner lenti í miklum vandræðum.
Jannik Sinner lenti í miklum vandræðum. Mark Avellino/Anadolu via Getty Images

Hitinn á Opna ástralska meistaramótinu í tennis hefur verið hærri en vanalega þetta árið og ríkjandi meistarinn Jannik Sinner lenti í miklum vandræðum í þriðju umferðinni gegn Eliot Spizzirri.

Sinner tapaði fyrsta settinu en stanglaðist svo til 3-1 sigurs í 3 klukkustunda og 45 mínútna leik í 38 stiga hita. 4-6, 6-3, 6-4, 6-4. Hann kallaði til læknis í þriðja settinu en læknirinn gat lítið hjálpað og Sinner sást skjálfa vegna krampa þegar líða fór á leikinn.

„Ég lenti í miklum líkamlegum vandræðum þannig að ég er glaður að hafa getað unnið þennan leik“ sagði ríkjandi meistarinn.

„Þetta byrjaði í fótunum en færði sig svo upp í hendurnar. Ég var kominn með krampa alls staðar. Ég var mjög heppinn að hafa hitaregluna. Þetta batnaði með tímanum.“

„Hitareglan“ virkjast þegar ákveðnum veðurskilyrðum er náð. Þá gerir dómari hlé á leiknum, í stað þess að leikmenn taki sér hléið sem þeir eiga báðir inni. Þegar dómari stöðvaði leikinn hjá Sinner þótti einhverjum það umdeilt, þar sem hann var í sjáanlega miklum vandræðum og væntanlega að fara að tapa settinu, en reglum mótsins var fylgt rétt eftir.

Eftir pásuna ráðlagði þjálfari Sinner honum að tapa þriðja settinu, þar sem hann var lentur undir og átti mjög litla orku til að berjast til baka. Betra leikplan væri að vinna næstu tvö sett í röð, en Sinner lét ekki segjast og tókst að snúa settinu við.

Hann komst síðan áfram í sextán liða úrslit og mætir þar Luciano Darderi.

Hitinn hefur haft áhrif á fleiri keppendur á mótinu, flest alla eflaust. Tennis er sport sem eltir sumarið og spilar þess vegna í Ástralíu í janúar. Hitinn í ár hefur hins vegar verið í hærra lagi og mótastjórn hefur þurft að hliðra mörgum leikjum, þannig að þeir fari ekki fram yfir hádegið í mesta hitanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×