Tíska og hönnun

Robyn í hönnun Sólar Hansdóttur

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Stórstjarnan Robyn klæddist hönnun Sólar Hansdóttur.
Stórstjarnan Robyn klæddist hönnun Sólar Hansdóttur. Vilhelm Gunnarsson/Instagram

Sænska súperstjarnan Robyn er með rosalega endurkomu inn í tónlistarheiminn um þessar mundir með splunkunýrri plötu sem nýtur mikilla vinsælda. Robyn er mikill tískuspegúlant og hefur greinilega frábæran smekk en hún rokkaði bol frá íslenska hönnuðinum Sól Hansdóttur á dögunum.

Sól Hansdóttir hefur getið af sér gott orð í hönnunarheiminum í Bretlandi en hún hefur birst í Vogue, sýnt á tískuvikum og er einn uppáhalds hönnuður fyrrum forsetafrúar okkar Dorritar Moussaieff. 

Blaðamaður náði tali af Sól sem segir samstarfið við Robyn mikinn heiður.

„Þetta kom til í gegnum stílista sem var að stílisera Robyn fyrir nýja lagið sem hún var að gefa út Dopamine, sem er æðislegt lag. Stílistinn fékk lánaðar flíkur úr nýjustu vorlínunni okkar 2026 fyrir upptökur á því myndbandi. 

Ég fæ svo tölvupóst nokkrum dögum síðar um að Robyn hafi elskað flíkina svo mikið að hún vildi kaupa hana af mér strax. 

Þetta var sýniseintak svo yfirleitt myndi ég ekki selja það en ég gat ekki sagt nei við því svo ég seldi henni samfestinginn.“

Samfestingurinn er gerður úr lífrænum bambus „jersey“ og er handlitaður með svartbaunum. 

„Eftir að hún keypti eina eintakið okkar þá þurftum við að drífa í að gera nýtt eintak svo við ættum það til fyrir fleiri stílistalán og pantanir. 

Við fórum bara á fullt að sjóða baunir og lita efni svo við gætum endurgert samfestinginn á sem skemmstum tíma,“ segir Sól brosandi en hún hefur lengi vel verið aðdáandi Robyn. 

„Ég elska Robyn, hún er ein uppáhalds tónlistakonan mín. Lögin hennar Call your Girlfriend og Dancing on my Own hafa í ófá skipti verið öskursungin í bílnum eða sturtunni og hjálpað mér í gegnum ástarsorg.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.