Handbolti

Þjálfari Dana um Ísland: „Nokkrir af bestu handboltamönnum heims“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nikolaj Jacobsen er enn á ný kominn með danska landsliðið í leiki um verðlaun.
Nikolaj Jacobsen er enn á ný kominn með danska landsliðið í leiki um verðlaun. Getty/ Sanjin Strukic/

Nikolaj Jacobsen, þjálfari danska landsliðsins, var spurður út í íslenska landsliðið eftir að lið hans vann Noreg í kvöld og tryggði sér undanúrslitaleik á EM á móti strákunum okkar.

Danir byrjuðu ekkert vel en skiptu síðan í gírinn og rúlluðu Norðmönnunum upp og unnu fjórtán marka sigur. Ísland og Danmörk mætast klukkan 19.30 á föstudagskvöldið.

Jacobsen var einnig spurður út í línumanninn Emil Bergholt sem meiddist í kvöld en danski þjálfarinn sagði að meiðslin litu ekki vel út. Hann segir jafnframt að meiðslin séu í fætinum.

„Bergholt hefur gert eitthvað við fótinn á sér. Við vitum ekki hvað það er enn þá. En við þurfum auðvitað að láta skoða það. En eins og staðan er núna lítur þetta ekki mjög jákvætt út,“ sagði Nikolaj Jacobsen eftir leik.

Hann var spurður út í það hvort það væri hætta á því að hann gæti ekki notað Bergholt á móti Íslandi á föstudaginn.

„Eins og ég segi, ég veit það ekki enn þá. Ég vil heldur ekki standa hér og tala um eitthvað sem ég veit ekki. En eins og staðan er núna lítur þetta ekki sérstaklega jákvætt út en nú líður einn dagur og svo þurfum við auðvitað að láta skoða hvað þetta er,“ sagði Jacobsen.

Hann var spurður út í íslenska landsliðið. Hvers konar andstæðingur verður það?

„Það verður erfitt. Þaðan koma nokkrir af bestu handboltamönnum heims og þeir munu veita okkur mótspyrnu, bæði hvað varðar hraða og í einn á einn leik. Þetta verður mjög erfitt verkefni en líka spennandi verkefni,“ sagði Jacobsen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×