Handbolti

Portúgölsku bræðurnir sendu Svía sára heim

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Martim Costa skoraði sigurmarkið á lokasekúndu leiksins.
Martim Costa skoraði sigurmarkið á lokasekúndu leiksins.

Portúgal vann 36-35 sigur gegn Svíþjóð og tryggði sér þar með fimmta sætið á EM í handbolta, eftir mikinn baráttuleik. Martim Costa var markahæstur í leiknum og er markahæsti maður mótsins hingað til.

Leikurinn bauð upp á hörkuspennu. Portúgal gat með sigri tryggt sinn besta árangur frá upphafi á EM. Svíarnir vildu hins vegar enda mótið á góðum nótum eftir að hafa misst af undanúrslitum með slæmum frammistöðum á heimavelli.

Það verður því ekki sagt að þessi leikur hafi ekki skipt liðin máli eða boðið upp á litla ákefð.

Æsispennandi slagur 

Liðin tókust vel á og skiptust margoft á forystunni, en aldrei munaði meira en tveimur mörkum nema alveg í upphafi fyrri hálfleiks.

Portúgalir byrjuðu betur og voru skrefinu á undan mest allan leikinn, en á lokamínútunum náði Svíþjóð tveggja marka forystu og virtist ætla að vinna.

Martim Costa átti hins vegar stórkostlegar lokamínútur, og bróðir hans Francisco Costa var engu síðri.

Bræðurnir tóku forystuna á ný fyrir Portúgal, en línumaðurinn Oscar Bergendahl jafnaði fyrir Svíþjóð þegar aðeins sex sekúndur voru eftir.

Bræðurnir komu aftur til bjargar 

Þá voru góð ráð dýr og Portúgal bað um leikhlé, með aðeins sex sekúndur til að ná upp skoti.

Portúgalski þjálfarinn teiknaði upp leikkerfi, þar sem allir héldu að Francisco Costa væri að fara að skjóta, en hann stökk upp í loft þegar tvær sekúndur voru eftir og gaf boltann á bróður sinn, Martim Costa, sem skoraði sigurmarkið með skoti af nokkuð löngu færi í þann mund sem lokaflautið gall.

Fagnaðarlætin voru gríðarleg eftir þessa miklu dramatík og Portúgal getur þakkað Costa bræðrum mikið fyrir besta árangur þjóðarinnar í sögu EM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×