Skoðun

Samfylking vill stóriðjuhlé

Þórunn Sveinbjarnardóttir skrifar
Þegar Hafnfirðingar ganga að kjörborðinu í íbúakosningu um stækkun álversins í Straumsvík hafa þeir í hendi sér valdið til þess að stöðva stækkunaráform Alcans. Það gera þeir með því að merkja nei við tillögu að nýju deiliskipulagi sem gerir ráð fyrir þreföldun álversins. Velji fólk að samþykkja skipulagstillöguna þá verður gert ráð fyrir stækkuninni í Straumsvík í skipulagi Hafnarfjarðarbæjar. Nýtt deiliskipulag er hins vegar ekki endanleg ávísun á stækkun. Þá á eftir að taka afstöðu til orkuöflunar, þjóðhagslegra áhrifa og fleiri þátta. Sú staðreynd vill gleymast í umræðunni um íbúakosninguna í Hafnarfirði.

Vald og vilji fólksins

Það er í senn lofsvert og til eftirbreytni að bæjarstjórnin í Hafnarfirði skuli hafa ákveðið að setja ákvörðun um skipulag sem rúmar stækkað álver í hendur bæjarbúa. Með því stígur Samfylkingin í Hafnarfirði stórt skref í átt til aukins íbúalýðræðis hér á landi. Ég er sannfærð um að krafan um íbúakosningar og þjóðaratkvæðagreiðslur um stór og brýn mál mun hljóma oftar og hærra hér á landi í náinni framtíð. Samfylkingin hefur frá upphafi barist fyrir auknum heimildum til þess að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur.

Verndum fyrst – virkjum svo

Fagra Ísland er yfirskrift stefnumótunar Samfylkingarinnar í umhverfis- og náttúruvernd. Þar er gert ráð fyrir því að Íslendingar geri stóriðjuhlé og nýti tímann til þess að kortleggja náttúru Íslands með tilliti til þess hvaða verðmætu svæði við viljum vernda og jafnframt hvaða svæði við teljum óhætt að nýta með öðrum hætti. Svo að þetta sé framkvæmanlegt þarf að taka leyfisveitingar til rannsókna og nýtingar á orkukostum úr höndum iðnaðarráðherra og færa þær aftur til Alþingis. Aðeins þannig er hægt að fá yfirsýn yfir þá kosti sem okkur bjóðast, forgangsraða þeim og vernda þá eða nýta til hagsbóta fyrir alla landsmenn. Það er mikilvægt að Hafnfirðingum sé stefna Samfylkingarinnar í umhverfismálum skýr þegar þeir ganga að kjörborði 31. mars nk.

Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×