Það er ekki hægt að segja annað en að þriðji ársfjórðungur hafi byrjað með skelli í Kauphöll Íslands í dag. Gengi hlutabréfa í Century Aluminum, móðurfélagi álversins á Grundartanga, féll um 7,7 prósent og Existu um 7,45 prósent.
Á eftir fylgdu Teymi, sem fór niður um tæp fimm prósent, Bakkavör féll um 4,25 prósent og SPRON fór niður um 4,2 prósent.
Þá féll Kaupþing um 2,23 prósent.
Alfesca, Atorka, Atlantic Petroleum, Marel og Straumur fóru öll niður um rúmt prósent á sama tíma. 365, Össur, Landsbankinn og Atlantic Airways fór niður um tæpt prósent.
Á sama tíma hækkaði gengi bréfa í Eik banka um fimm prósent, í Icelandair um 1,81 prósent og Færeyjabanka um eitt prósent.
Úrvalsvísitalan lækkaði um 1,91 prósent á þessum fyrsta degi þriðja ársfjórðungs og stendur vísitalan í 4.293 stigum. Hún hefur nú fallið um rúm 32 prósent frá áramótum.