„Við vissum að ef við ætluðum að eiga einhvern möguleika í þetta lið þá þyrftum við allar að eiga toppleik. Þannig var staðan ekki á okkur í dag," sagði Dagný Skúladóttir eftir tap kvennalandsliðsins gegn Rúmeníu í dag.
Rúmenía vann fjórtán marka sigur en síðari leikur þessara þjóða fer fram eftir viku ytra. Staðan í hálfleik var 8-21 og fyrri hálfleikurinn gerði útslagið í leiknum.
„Mér fannst við alls ekkert koma illa stemmdar í þennan leik og fyrstu fimm mínúturnar voru ágætar. Síðan fengum við fjögur mörk á okkur í röð og ég veit ekki hvað gerðist," sagði Dagný sem skoraði fimm mörk í leiknum.
„Júlíus lét okkur heyra það í hálfleik og það finnst mér ekki skrýtið. Við áttum það skilið. Nú er markmiðið að klára þetta verkefni bara með sæmd í seinni leiknum. Þetta rúmenska lið er mjög öflugt, lenti í fjórða sæti á síðasta HM svo þetta var hörkulið sem við mættum í dag."