Matsfyrirtækið Moody´s hefur sett lánshæfiseinkunn FIH bankans í Danmörku í ruslflokk. Einkunn var lækkuð úr Baa3 og niður í Ba1 með neikvæðum horfum. Eins og kunnugt er af fréttum frá í morgun hefur Moody´s lækkað lánshæfiseinkunnir fimm danskra banka.
Í frétt um málið á vefsíðunni Finanswatch segir að ákvörðun Moody´s komi ofan í tilraunir stjórnar FIH til að bæta orðstír sinn en þar til fyrir skömmu var bankinn í íslenskri eigu.
Fram kemur á vefsíðunni að lækkun á lánshæfiseinkuninni komi sér illa fyrir FIH þar sem bankinn þurfi að endurfjármagna skuldabréfaútgáfu upp á 50 milljarða danskra kr. árin 2012 og 2013. Þessi skuldabréf voru gefin úr með ábyrgð danska ríkisins í gegnum svokallaðan bankpakke II sem var hluti af aðstoð danskra stjórnvalda við bankakerfi landsins.
Thomas Hovard greinandi hjá Danske Markets segir að til lengri tíma muni Moody´s væntanlega horfa til nýrra og fjársterkra eigenda FIH þar sem tveir af stærstu lífeyrissjóðum Danmerkur fara með ráðandi hlut.