Skoðun

Flýtimeðferð - já takk!

Elsa Lára Arnardóttir Silja Dögg Gunnarsdóttir skrifar
Nú hefur Verkefnastjórn um framtíðarskipan húsnæðismála skilað af sér vinnu sinni og fyrirséð er að miklar breytingar mun verða á núverandi húsnæðiskerfi. Lánafyrirkomulag breytist og stefnt er að því að öll húsnæðislán verði óverðtryggð. Óvissa ríkir enn um lögmæti verðtryggðra húsnæðislána og slík óvissa er slæm fyrir heimilin. Mikilvægt er að dómsmál varðandi lögmæti verðtryggingar fái flýtimeðferð í dómskerfinu svo fólk geti áttað sig á stöðu sinni og gert framtíðaráætlanir.

Burt með verðtrygginguna

Verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála hefur skilað af sér og niðurstöður þeirrar vinnu eru m.a. þær að tekið verði upp nýtt húsnæðislánakerfi þar sem lánveitingar til húsnæðiskaupa fara í gegnum sérstök og sérhæfð húsnæðislánafélög. Jafnframt kemur það fram að húsnæðisláni til framtíðar verði óverðtryggð, enda hafi nauðsynlegar kerfisbreytingar og mótvægisaðgerðir gert það kleift.

Afar ánægjulegt er að sjá að verðtrygging á nýjum húsnæðislánum muni heyra sögunni til. Það mun án efa styrkja stöðu heimilanna og koma í veg fyrir að verðtryggingin muni soga til sín eignahluta fjölda heimila og flytja yfir til fjármálastofnanna.

Eru verðtryggð lán lögmæt?

Það er staðreynd að stór hluti íslenskra heimila eru með verðtryggð húsnæðislán. Lán sem hafa hækkað upp úr öllu valdi sökum verðtryggingar og óða verðbólgu.

Skuldaaðgerðir Framsóknar – og Sjálfstæðisflokksins koma á móts við heimilin og  munu leiðrétta þann forsendubrest sem hér varð. Enn verður þeirri spurningu ósvarað, það er hvort verðtryggð lán séu yfir höfuð lögmæt. En fyrir dómstólum eru nú mál er snúa að lögmæti verðtryggingarinnar af neytendalánum.

Heimilin í járnum

Talsvert margir sem nú eru með verðtryggð lán hafa hug á því að koma þeim yfir í óverðtryggð lán.  Sérstaklega þegar ákveðnar kerfisbreytingar hafa verið gerðar á húsnæðislánamarkaði og mótvægisaðgerðir vegna hærri greiðslubyrgði lána hafa verið tryggðar.

Hins vegar bíða margir eftir því hver niðurstaða þeirra dómsmála verður er snýr að lögmæti verðtryggingarinnar og gera engar breytingar á lánum sínum fyrr en niðurstaða liggur fyrir. Á meðan eru heimili landsins í óvissu um stöðu sína, sem er slæmt og við þessar aðstæður heldur verðtryggingin vægi sínu á lánamarkaði, sem er ekki óskastaða fyrir heimilin. Við því þarf að bregðast.

Flýtimeðferð samþykkt á Alþingi

Í þessu samhengi er afar mikilvægt að þau mál sem eru í gangi varðandi lögmæti verðtryggingarinnar, fái flýtimeðferð í gegnum dómskerfið. Í fyrra sumar var samþykkt á Alþingi frumvarp sem tekur einmitt til þess, að gefa fordæmisgefandi málum er tengjast skuldamálum heimilanna, hraðari meðferð í gegnum dómskerfið.

Þar er lagt  til að í þeim dómsmálum þar sem ágreiningur er uppi um lögmæti þess að binda fjárskuldbindingu við gengi erlendra gjaldmiðla, vísitölu eða uppgjöri slíkra skuldbindinga, skuli hraða meðferð mála og veita þeim forgang fram yfir önnur mál sem bíða meðferðar hjá dómstólum.  Í því felst að dómari sjái til þess að allir frestir í máli séu eins stuttir og mögulegt er og að dómur sé kveðinn upp hið fyrsta.  Á þetta bæði við um mál sem rekin eru fyrir héraðsdómi og Hæstarétti.

Það er skoðun okkar að dómsmál er varða lögmæti verðtryggingarinnar af neytendalánum fái þessa flýtimeðferð sem lögin kveða á um. Þá fyrst vitum við raunverulega hverju við þurfum að bregðast við.

Lán hafa verið dæmd ólögleg, það getur gerst aftur.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×