Skoðun

Trampað á tungunni

Gauti Kristmannsson skrifar

Íslenskir stjórnmálamenn eru gjarnir á að lofa íslenska menningu og tungu. Það gera þeir á tyllidögum til að tjá landsmönnum umhyggju sína fyrir menningu þeirra og arfleifð. Þegar kemur hins vegar að því að gera það í verki verður minna úr og stundum virðist vera markvisst unnið að því trampa þessa örtungu okkar og menningu niður, kannski það eina sem réttlætir tilveru okkar sem þjóð meðal þjóða.



Dæmin eru mörg, en núna kastar tólfunum, rétt eftir að í ljós hefur komið að stór hluti ungviðisins er illa læs ef þá yfirleitt. Það á að hækka virðisaukaskatt á bókum á þessum örmarkaði eins elsta og bókmenntaauðugasta tungumáls um veröld víða. Langflestar þjóðir í kringum okkur hafa virðisaukaskatt á bókum í lægsta þrepi og, gagnstætt því sem er stundum fram haldið, þá eru tvö og fleiri þrep á virðisaukaskatti í þeim nánast öllum.



Öflugasta tungumál heims er án vafa enska og það mætti ætla að stjórnmálamönnum landa eins og Bretlands og Írlands þætti ekki tiltökumál að skattleggja bækur á stærsta og öruggasta markaði heims. En svo er ekki, virðisaukaskattur á bókum þar er 0% og þykir sjálfsagt, enda teljast bókmenntir mikilvægur menningararfur í þessum löndum auk þess sem þær eru mikið notaðar til náms eins og ku vera hér líka.



Með hækkun á virðisaukaskatti á bókum (og öðrum menningarafurðum) er vegið að íslenskri tungu og hefur reyndar verið nóg gert með aðgerðaleysi og vesaldómi hingað til eins og kennarar þessa lands á öllum skólastigum vita og sjá á hverjum degi. Og háskólastúdentar, sem á síðasta ári fengu margir sérstaka skattahækkun á nám sitt í Háskóla Íslands, fá nú viðbótarhækkun á námsbækurnar sínar í nafni einföldunar á skattakerfi sem engin er. Og hinar peningalegu tekjur fyrir ríkissjóð eru svo litlar að menn taka varla eftir þeim í Excel-skjölum ráðuneytisins. Hins vegar munu menn taka eftir því, hér sem annars staðar, þegar elstu tungu Evrópu, með sína merku bókmenntahefð og kraftmikla menningarlíf, hefur blætt út til einföldunar í bókhaldi ráðuneytis.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×