„Fólk hefur spurt hvort það geti sleppt því að senda börnin í skólann,“ segir Sigurður Þór Ágústsson, skólastjóri Grunnskóla Húnaþings vestra. Hann segir níu börn á vestanverðu Vatnsnesi þurfa að aka langan veg til og frá skóla.

Sigurður segir ástand veganna á Vatnsnesi vestanverðu hafa verið svo slæmt að ferðatími barnanna hafi lengst um allt að hálftíma.
„Af því að ferðatíminn er að lengjast og bíllinn er að hossast þá verða þau bara meira veik. Ökuhraðinn er oft og tíðum ekki meiri en tíu til tuttugu kílómetrar á klukkustund. Menn vita hvernig það er að fara ofan í tuttugu sentímetra djúpar holur trekk í trekk á þessum ferðahraða,“ segir Sigurður.
Í svari sem skólastjórinn fékk frá svæðisstjóra Norðursvæðis Vegagerðarinnar var borið við fjárskorti. „Einu úrræðin sem menn hafa er að senda hefil einstaka sinnum. Það er allt efnið búið í veginum og hefillinn sópar bara yfir. Eins og tíðin er búin að vera þá hoppar þetta bara upp úr holunum strax aftur,“ útskýrir hann.
Þorbjörg Ásbjarnardóttir og fjölskylda fluttu á Þorgrímsstaði utarlega á Vatnsnesi fyrir ellefu árum. Hún segir þeim hafa verið vegalengdin í skólann vel ljós.
„En ég held að það hafi enginn gert sér grein fyrir því hvað umferðin myndi aukast svakalega,“ segir Þorgerður sem kveður ferðamenn nú streyma út Vatnsnes allt árið um kring með gríðarlegu álagi á malarveginn þar sem þoli alls ekki umferðarþungann og sé nánast ónýtur og einfaldlega stórhættulegur.
„Börnin kvarta undan því að vera svo lengi á leiðinni í skólabílnum,“ segir Þorbjörg. Stundum kasti þau upp á leiðinni. „Sum börnin eru svakalega bílveik að þurfa að fara þennan veg. Við sem foreldrar veltum fyrir okkur hvað við getum gert til þess að hlífa börnunum við þessu. Eitthvað verður að gera, þetta er ekki hægt.“
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.