Skoðun

Aukin einkavæðing stef nýrrar ríkisstjórnar

Guðríður Arnardóttir skrifar
Í stjórnarsáttmála hægri stjórnarinnar er fjallað um fjölbreytt rekstrarform í menntakerfinu. Upp á almennilega íslensku eru þetta fyrirheit um frekari einkavæðingu. Það auðvitað kemur ekki á óvart enda hefur hægrið ætíð talað fyrir slíku. Forysta kennara um heim allan hefur goldið varhug við aukinni einkavæðingu í skólakerfinu. Markaðsvæðing menntunar hefur ýtt undir misskiptingu og reist veggi milli þjóðfélagshópa. Stéttaskipting og fordómavæðing samhliða auknum einkarekstri eru staðreyndir byggðar á gögnum sem Evrópusamtök kennara (ETUCE) hafa tekið saman. Tilgangur einkareksturs er að fá af honum arð. Að reksturinn skili hagnaði fyrir eigendurna. Hagfræði 101 kennir okkur að til þess að græða þurfa útgjöld að vera lægri en tekjur. Og til þess að græða sem mest þarf annað hvort að spara í rekstri eða hækka gjaldskrár.

Það þarf ekki einkarekstur til þess að nýta fjármagn af skynsemi. Rekstraraðilar opinberra menntastofnana eru sem betur fer flestir starfi sínu vaxnir og fara vel með fjármuni en oftlega er of naumt skammtað sem hefur leitt til alvarlegs rekstrarvanda, t.d. í mörgum framhaldsskólum landsins. Fyrirheit nýrrar ríkisstjórnar um aukna einkavæðingu í menntakerfinu eru ekki fögur í augum okkar fagfólks. Samtök kennara í Evrópu hafa tekið svo djúpt í árinni að kalla aukna markaðsvæðingu menntakerfisins aðför að félagslegu jafnrétti og bjóða heim hættu á vaxandi stéttaskiptingu með heftu aðgengi þeirra efnaminni að gæðamenntun.

Nú þegar má segja að menntun á framhaldsskólastigi sé einkavædd fyrir tiltekinn aldurshóp. Ungmennum yfir 25 ára er þannig vísað út úr ríkisskólunum í einkaúrræði símenntunarstöðvanna. Þetta eru ungmennin sem hafa fallið frá námi, mörg hver hafa þau félagslega veikan bakgrunn og/eða félagsleg staða þeirra leitt til brottfalls. Um leið og þeim er vísað í önnur og dýrari úrræði erum við að ala á misskiptingu og þar með stéttaskiptingu. Það er ekki bara ég sem vara við aukinni einkavæðingu menntunar. Það er kennarasamfélagið allt þvert á landamæri. Fólkið sem kann, veit og getur.

 

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×