Bæði lið enduðu í 4. sæti í sínum deildum á síðasta tímabili. Árangur Hoffenheim kom mikið á óvart en hinn þrítugi Julian Nagelsmann hefur gert frábæra hluti með liðið.
Einn af styrkleikum Hoffenheim á síðasta tímabili voru föst leikatriði. Liðið fékk aðeins átta mörk á sig eftir föst leikatriði í fyrra og skoraði sjálft 16 mörk.
Ekkert lið skoraði jafn mörg mörk eftir föst leikatriði í þýsku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili og Hoffenheim.

Síðan Jürgen Klopp tók við Liverpool fyrir tæpum tveimur árum hafa aðeins tvo lið, Crystal Palace og Watford, fengið á sig fleiri mörk (28) eftir föst leikatriði en Liverpool (27).
Liverpool gerði 3-3 jafntefli við Watford í 1. umferð ensku úrvalsdeildarinnar á laugardaginn. Tvö marka Watford komu eftir hornspyrnur.
„Við verjumst flestum föstum leikatriðum mjög vel en er það nóg þegar við fáum á okkur mörk eftir þau? Nei. Við þurfum að vinna í þessu,“ sagði Klopp um vandræði Liverpool í föstum leikatriðum.
Leikur Hoffenheim og Liverpool hefst klukkan 18:45 og verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD.