Þegar Trump bauð fréttamönnum inn í borðstofu í Hvíta húsinu þar sem hann var að fara að snæða með hópi herforingja spurði hann hópinn hvort þeir vissu fyrir hvað herforingjarnir stæðu, að því er segir í frétt New York Times.
„Kannski er þetta lognið á undan storminum,“ svaraði forsetinn þegar blaðamaður bað hann um að skýra spurninguna frekar. Þegar blaðamenn gengu á hann um hvað það þýddi svaraði Trump aðeins „Þið munið komast að því“.
Mögulega ekkert annað en látalæti
Leiddi þessi óljósa viðvörun til vangaveltna um hvort að bandarísk stjórnvöld hygðu á einhvers konar hernaðaraðgerðir. Trump hefur um nokkurt skeið látið í veðri vaka að hann gæti beitt herafli gegn Norður-Kóreu.
Þá hafa fregnir borist af því að hann ætli að rifta kjarnorkusamkomulagi við Írani sem gæti leitt til þess að Bandaríkin hefji aftur refsiaðgerðir gegn þeim.
New York Times segir að aðstoðarmenn forsetans hafi ekki haft hugmynd um hvað Trump átti við með þessum orðum. Blaðið gerir að því skóna að ummæli forsetans hafi mögulega ekki verið annað en látalæti.