Leikstjórinn Quentin Tarantino segist hafa vitað af meintum kynferðisbrotum Harvey Weinstein í áratugi. Segist Tarantino skammast sín mikið fyrir að hafa ekki tekið skýrari afstöðu gegn Harvey og að hafa ekki hætt að vinna með honum. The New York Times greinir frá.
Umræða um kynferðislegt áreiti í garð kvenna í kvikmyndaiðnaðinum hefur verið í hámæli undanfarna daga eftir að fjöldi kvenna steig fram og opnaði sig um áreiti leikstjórans Harveys Weinstein. Gífurlegur fjöldi kvenna hafa sakað framleiðandann um kynferðislega áreitni og jafnvel nauðgun.
„Ég hefði átt að grípa til aðgerða miðað við það sem ég vissi,“ sagði Tarantino. „Þetta voru ekki hefðbundnir orðrómar sem ég heyrði um hann. Frásagnirnar komu ekki til mín í gegnum þriðja aðila. Ég veit fyrir víst að hann gerði margt af þessu.“
Fyrrverandi kærasta Tarantino áreitt af Weinstein
Leikstjórinn segir einnig að fyrrverandi kærasta hans, Mira Sorvino, hafi sagt honum að Harvey hafi áreitt sig. Tarantino hélt að um einstakt tilvik væri að ræða í það skiptið. Að framleiðandinn hafi „bara verið svo yfir sig hrifinn af Mira.“
Þrátt fyrir að heyra sífellt fleiri sögur um kynferðislegt áreiti framleiðandans í gegnum árin hélt hann áfram að að búa til myndir með Weinstein, ákvörðun sem hann segist sjá eftir núna.
Tarantino og Weinstein hafa unnið saman að fjölda kvikmynda. Má til að mynda nefna myndirnar Reservoir Dogs, Pulp Fiction, Kill Bill og Inglorious Bastards. Þá hélt Weinstein einnig trúlofunarveislu fyrir Tarantino fyrir nokkrum vikum.