Skoðun

Tilraunin

Bjarni Karlsson skrifar
Við erum þátttakendur í stærstu tilraun sem gerð hefur verið á jörðinni. Hún hófst seint á sautjándu öld og er kennd við upplýsingu og nútíma. Ótrúlegar framfarir hafa átt sér stað, skýjakljúfar hafa risið, þotur svífa um gufuhvolfið og alnetið tengir okkur saman með aðstoð gervihnatta, að ekki sé minnst á framfarir í læknavísindum sem linað hafa þjáningar og bætt árum við mannsævir.

Tilraunin hófst fyrir meira en þrjú hundruð árum og þetta er búið að vera stórkostlegt ferðalag en nú eru niðurstöður komnar fram sem sýna að samhliða sigurgöngu nútíma þekkingar og tækni hefur orðið til hnattrænt hagkerfi sem snýr þannig að bankaskuldin er hjá þróunarríkjum í suðri gagnvart iðnríkjum í norðri sem aftur eiga þorra vistkerfisskuldanna. Þá hefur orðið til sáttmáli tækni og hagkerfis þess efnis að framkvæma skuli allt sem er tæknilega gerlegt svo lengi sem það skapi hagvöxt. En gallinn er sá að hagvöxtur er þröngt sjónarhorn og tekur ekki til heilsu jarðvegs og vatnasviða, veltir ekki fyrir sér vexti eyðimarka eða rýrnun líffræðilegs fjölbreytileika og spyr ekki að líðan manna og annarra lífvera.

Ljóst er orðið að árangurinn sem náðst hefur byggir á vistkerfisskuld fyrir hönd ófæddra barna sem óvíst er hvort þau nokkru sinni ná að standa undir á meðan neyslu- og framleiðslumynstur reiða sig mikið á barnaþrælkun. Nútíminn var stórkostleg tilraun með enn stórkostlegri veikleikum sem bitna sérstaklega á framtíðinni. Í eftir­nútímanum ríður á að hlusta vel og nýta öll þekkingarform mannkyns; vísindi, listir, trúarbrögð, frumbyggjafræði, þjóðsögur og hvað annað sem hönd á festir. Vandinn er flókinn en eitt blasir við: Tíma yfirráðanna er lokið en tími samráðsins runninn upp.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×