Skoðun

Frumkvöðlar

Jóna Hrönn Bolladóttir skrifar
Þau sem heimsækja LA sjá ekki bara Hollywood-skilti og njóta sólar, einu gildir í hvaða borgarhluta þú kemur, alltaf blasir við fólk með ómeðhöndlaða geðsjúkdóma sem á höfði sínu hvergi að halla. Þegar ég sótti þarna nám var ég ítrekað að leita skýringa á þessu ástandi og þá kom í ljós að allir vissu að Ronald Reagan hafði tekið þá ákvörðun á sínum tíma að loka úrræðum fyrir geðsjúka á landsvísu með þessum afleiðingum m.a. Þegar ég nefndi að það væri á ábyrgð samfélagsins að standa með veiku fólki var ég jafnan spurð hvort ég væri sósíalisti.

Árum saman hef ég fylgst með starfsemi Hugarafls, m.a. þegar svilkona mín starfaði þar og þá kynntist ég orðinu valdefling fyrst. Nú hefur þessi magnaða starfsemi verið sett í mikið uppnám vegna skipulagsbreytinga stjórnvalda og ég skil ekki hvernig bæta á þjónustu við geðsjúka með því að varpa fyrir róða þeirri reynslu og þekkingu sem tilheyrir Hugarafli og geðteyminu sem byggt hefur það upp.

Valdefling snýst um tvennt; sjálfræði og tengsl. Einu gildir hver verkefni okkar eru í lífinu, við þurfum þetta tvennt til þess að blómstra, ekki síst þegar heilsan er annars vegar. Vinkona mín sem glímt hefur við geðrasakanir í þrjátíu ár sagði við mig nýlega: Ég er svo mikið ein að ég næ aldrei að verða heilbrigð. Hugarafl er langþróuð valdeflingarmiðstöð í þágu geðsjúkra þar sem einangrun er rofin og unnið er með fólki frekar en að vinna með það. Ég hef rætt ítrekað við embættismenn, fagfólk og notendur þjónustunnar og fæ enn ekki séð rökin fyrir breytingunum. Gott að menn vilji bæta í, en að gera það án þess að byggja á frumkvöðlakraftinum er alvarlegur misskilningur á viðfangsefninu að mínum dómi. Hugarafl er þarfur valkostur í úrræðaflóru samfélagsins.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×