Yfirmaður þjóðaröryggisráðs Írans hótar því að Íranir gætu dregið sig út úr samningnum um bann við útbreiðslu kjarnavopna ef Donald Trump Bandaríkjaforseti riftir kjarnorkusamningnum sem heimsveldin gerðu við Íran árið 2015.
Trump hefur gert sig líklegan til að rifta samningnum sem fól í sér að refsiaðgerðum yrði aflétt af Íran gegn því að ráðamenn þar hættu við kjarnorkuframleiðslu sína. Hann hefur gefið Evrópuþjóðum frest til 12. maí til að lagfæra það sem hann telur „hræðilega galla“ á samningnum.
Ali Shamkhani, formaður þjóðaröryggisráðs Írans, sagði á blaðamannafundi að það væri einn af þremur kostum sem írönsk stjórnvöld skoðuðu að hætta þátttöku í alþjóðlegu banni við útbreiðslu kjarnavopna ef Trump riftir kjarnorkusamningnum, að því er segir í frétt Reuters-fréttastofunnar.
Íran hefur átt aðild að samningnum um bann við útbreiðslu kjarnavopna frá 1970. Hassan Rouhani, forseti Írans, varaði Trump einnig við „alvarlegum afleiðingum“ þess að rifta samningnum frá 2015.
Bandaríkin, Kína, Rússland, Bretland, Frakkland og Þýskaland gerðu samninginn við Íran. Bandamenn Bandaríkjamanna hafa undanfarið þrýst á Trump að rifta samningnum ekki.
Emmanuel Macron, forseti Frakklands, er nú í opinberri heimsókn í Bandaríkjunum og var búist við því að hann tæki málið upp við Trump. Eins er búist við þvi að Angela Merkel, kanslari Þýskalands, geri slíkt það sama við Bandaríkjaforseta þegar þau hittast á föstudag.
