Guðmundur Kristjánsson, forstjóri HB Granda, hefur sagt sig úr stjórn HB Granda. Þetta kemur fram í tilkynningu HB Granda til Kauphallarinnar í morgun.
Þann 21. júní ákvað stjórn HB Granda að segja Vilhjálmi Vilhjálmssyni forstjóra upp störfum og ráða Guðmund, þáverandi stjórnarformann HB Granda, nýjan forstjóra. Óvissa er uppi um hvort HB Granda hafi verið heimilt að ráða Guðmund, aðaleiganda Brims, stærsta hluthafa útgerðarinnar.
Rannveig Rist sagði sig sem kunnugt er úr stjórn HB Granda þar sem hún var óánægð með hvernig staðið var að uppsögn Vilhjálms.
Viðskiptablaðið greindi frá því um helgina að Samkeppniseftirlitið hefði til skoðunar hvort myndast hefði yfirráð í skilningi samkeppnislaga þegar Brim eignaðist 34 prósenta hlut í HB Granda í maí.
Guðmundur er því sem stendur aðaleigandi og stjórnandi Brims en um leið forstjóri HB Granda.
