Gengi bréfa í Icelandair hefur hrapað í Kauphöllinni í morgun. Nú skömmu fyrir klukkan 10 var fallið um 10 prósent frá opnun markaða. Það sem af er degi hafa viðskipti með bréfin numið um 130 milljónum króna.
Ekki þarf að fjölyrða um ástæðuna - Icelandair féll frá kaupum á WOW Air eins og greint var frá í morgun. Bréf í Icelandair höfðu hækkað nokkuð skarpt frá upphafi mánaðar, þegar fyrst var greint frá viðræðum um WOW. Gengi bréfanna var rúmlega 6 krónur fyrir WOW-tíðindi en rauk upp í rúmlega 11 krónur. Nú standa bréfin í um 10 krónum á hlut.
Dagurinn er annars eldrauður í Kauphöllinni. Öll félög hafa lækkað í morgun, þó ekkert jafn mikið og Icelandair. Það sem næst kemur er Festi, en félagið sendi frá sér afkomutilkynningu í gær sem olli vonbrigðum. Verðlækkun bréfa í Festi nemur 9,5 prósentum.
Úrvalsvísitalan hefur fallið um rúmlega 2,6 prósent í morgun.
Uppfært klukkan 12:35
Bréfin hafa lækkað um 10,5% eftir 320 milljóna viðskipti.

