Bezos er eigandi Amazon og Washington Post sem Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur fundið flest til foráttu og er útgefandi National Enquirer, David Pecker, náinn vinur forsetans. Eftir að upp komst um framhjáhald Bezos og voru vangaveltur uppi um hvort umfjöllun blaðsins ætti sér pólitískar rætur.
Bezos sagði frá því á dögunum að lögmaður AMI hefði sent sér tölvupósta þar sem hann krafðist þess að Bezos myndi lýsa því yfir opinberlega að umfjöllunin ætti ekki pólitískar rætur. Annars myndi blaðið birta vandræðalegar myndir af Bezos og þar á meðan sjálfsmynd neðan beltis, svokallaða „dick-pick“ eins og það var orðað í póstinum, samkvæmt Bezos.
Í kjölfar umfjöllunar National Enquirer hóf Bezos eigin rannsókn á því hvernig AMI kom höndum yfir skilaboðin og myndirnar. Þeim hluta rannsóknarinnar sem snýr að lekanum er nú lokið samkvæmt Daily Beast. Þá segir miðillinn að rannsakandi Bezos hafi komið þeim gögnum sem hann aflaði í hendur lögreglu. Hann vildi þó ekki segja frá niðurstöðum sínum.
Margir heimildarmenn benda á bróðirinn
Daily Beast vísar þó í nokkra heimildarmenn innan AMI og sérstaklega einn sem hefur rætt við forsvarsmenn fyrirtækisins um málið og segist hann fullviss um að Michael Sanchez hafi lekið skilaboðunum og myndunum til AMI.Þá sagði Elkan Abromowitz ,lögmaður fyrirtækisins, í sjónvarpsviðtali í gær að National Enquirer hefði fengið upplýsingar frá heimildarmanni sem hafi lengi útvegað miðlinum upplýsingar og þekkti vel til bæði Lauru Sanchez og Jeff Bezos.

Það hefur áður komið fram hjá Daily Beast að Michael Sanchez hafi átt í persónulegum samskiptum við nokkra af helstu bandamönnum Trump eins og Roger Stone og Carter Page.
Ekki kúgun heldur „viðræður“
Málið nú vekur ekki síst athygli í ljósi sáttar sem Pecker og American Media gerðu við alríkissaksóknara í New York í september. Saksóknararnir höfðu komist að því að greiðsla fyrirtækisins til klámmyndaleikkonu sem sagðist hafa átt í kynferðislegu sambandi við Trump forseta hefði verið ólöglegt kosningaframlag.American Media slapp við saksókn en þurfti í staðinn að viðurkenna að það hefði greitt konunni til að hafa áhrif á forsetakosningarnar árið 2016. Lofaði það einnig að fremja engin brot í þrjú ár. Að öðrum kosti gætu saksóknararnir dregið málið gegn fyrirtækinu aftur.
Reynist fyrirtækið hafa brotið af sér í máli Bezos gæti það þannig ógnað sáttinni sem það gerði við saksóknarana. Saksóknarar kanna nú hvort tilefni sé til að ógilda sáttina.
Abromowitz, lögmaður AMI, þvertekur fyrir að starfsmenn AMI hafi reynt að kúga Bezos með því að hóta að birta viðkvæmar myndir af honum. Þess í stað sagði hann að um hefðbundnar lagalegar viðræður hafi verið um að ræða.
„Það er algjörlega ekki glæpur að einfaldlega biðja einhvern um að segja sannleikann. Segðu sannleikann um að þessi umfjöllun eigi ekki pólitískar rætur og við munum ekki birta fleiri greinar,“ sagði Abramowitz í gær.