Skoðun

Látum ekki blekkjast

Valgerður Sigurðardóttir skrifar
Það er ákveðin list að láta ekki blekkjast af öllu því sem skrifað er í fjölmiðla nú til dags. Oft eru vísurnar hálfkveðnar eða hreinlega farið með ósannindi. Því þurfa lesendur skoðanadálka í fjölmiðlum stöðugt að vera á varðbergi og vakandi fyrir réttum staðreyndum, en ekki er ráðlagt að trúa öllu sem sagt er eða skrifað. Og það á við um t.d. skoðanagrein Einars Kárasonar, rithöfundar og sitjandi þingmanns Samfylkingarinnar, en hann ritaði pistil í Fréttablaðið í síðustu viku undir fyrirsögninni „Látum ekki blekkjast af níðinu um borgarstjórn“.

Einari er í þessu samhengi bent á að sumum staðreyndum er óhætt að treysta. Það á t.d. við um staðreyndir um fallna dóma í Héraðsdómi og Hæstarétti, álit umboðsmanns Alþingis, úrskurði sem kveðnir eru upp af opinberum aðilum og skýrslur sem innir endurskoðandi Reykjavíkurborgar gerir.

Ég vil því benda Einari góðfúslega á að frá því að Viðreisn reisti meirihluta Samfylkingar, Vinstri Grænna og Pírata við hafa meðal annarra eftirfarandi dómar, úrskurðir og/eða álit fengið að líta dagsins ljós:

- Hæstiréttur staðfesti að borgin snuðaði öryrkja um bætur.

- Héraðsdómur felldi dóm um störf skrifstofustjóra borgarstjórans.

- Umboðsmaður Alþingis gaf út álit á brotum borgarinnar í húsnæðismálum Félagsbústaða. 

- Ólögleg var staðið að ráðningu borgarlögmanns að mati Jafnréttisstofu. 

- Svört skýrsla borgarskjalasafns um skjalamál borgarinnar var gerð opinber á síðasta ári.

- Innri endurskoðun borgarinnar gerði skýrslu um 300 milljóna kr. framúrkeyrslu Félagsbústaða sem leiddi til þess að framkvæmdastjórinn sagði starfi sínu lausu. 

- Skýrsla innri endurskoðunar um braggamálið kom út í desember í fyrra. 

- Álit Persónuverndar um að borgin hafi brotið persónuverndarlög í aðdraganda kosninganna.

Er ástæða til telja upp meira?

Háttvirti þingmaður Samfylkingar Einar Kárason ætti e.t.v. að kynna sér staðreyndir í stað þess að vaða fram á ritvöllinn með órökstuddum dylgjum um blekkingar, þar sem hann gerir tilraun til að slá ryki í augu borgarbúa. Eða tekur þingmaðurinn kannski ekki mark á Hæstarétti, Héraðsdómi, umboðsmanni Alþingis, Persónuvernd og/eða innri endurskoðun Reykjavíkurborgar?

Höfundur er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×