Skoðun

Auðlindirnar okkar

Oddný G. Harðardóttir skrifar
Umræðan um þriðja orkupakkann er afar ruglingsleg. Svo virðist sem þau sem hafa þar hæst séu í raun alls ekkert að tala um það sem er í pakkanum. Þau draga fram skýra línu þar sem öðrum megin við hana er almenningur og hinum megin eru útlendingar sem vilja komast yfir auðlindir þjóðarinnar. Og svo eru bjargvættir leiddir til sögunnar sem einir geta og vilja vernda þjóðina fyrir gömmunum. En umræðan er líka um raunveruleg áhyggjuefni.

Ég fæ ekki betur séð en að orkupakkinn fjalli helst um neytendavernd, orkuöryggi og virkari samkeppni. Pakkinn mun ekki hafa mikil áhrif hér á landi á meðan orkan okkar er ekki á orkumarkaði ESB. Til þess þyrfti sæstreng sem gæti reyndar flutt rafmagn til okkar ef við værum í neyð. Og þeir sem allra síst vilja aukna samkeppni í sölu rafmagns eru eigendur stóriðjunnar sem kaupir 70-80% alls rafmagns hér á landi. Þeir eru nú í lykilstöðu við samningaborðið um rafmagnsverðið enda engir aðrir kaupendur því enginn er sæstrengurinn.

Sæstrengur er ekki í sjónmáli og ekki er heldur verið að leggja drög að lagningu hans eftir að Bretar tóku ákvörðun um Brexit. Kannski kemur hann aldrei. Samt er ljóst af umræðunni um orkupakkann að margir eru uggandi og vilja tryggari umgjörð um auðlindir þjóðarinnar. Og það viljum við í Samfylkingunni líka.

Lausnin er auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Ákvæði þar sem áréttað er að enginn geti fengið auðlindirnar eða réttindi tengd þeim til eignar eða varanlegra afnota og aldrei megi selja þær eða veðsetja.

Í kosningunum um tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá í mars 2012 fékk spurningin „Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu lýstar í þjóðareign“ mikinn stuðning kjósenda.

Ef ruglingslega umræðan um orkupakkann leiðir til þess að við fáum auðlindaákvæði í stjórnarskrá, þá væri hún sannarlega til einhvers.

Höfundur er formaður þingflokks Samfylkingarinnar




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×