Tveir nýliðar eru í A-landsliðshóp karla í körfubolta sem keppir á Smáþjóðaleikunum í Svartfjallalandi en Craig Pedersen mun ekki þjálfa liðið.
Hilmar Smári Henningsson og Halldór Garðar Hermannsson stóðu sig frábærlega með sínum liðum í Domino´s deild karla í vetur og fá nú sitt fyrsta tækifæri með A-landsliðinu.
Hilmar Smári Henningsson var kosinn besti ungi leikmaður deildarinnar á dögunum og er bara átján ára gamall. Halldór Garðar er 22 ára.
Finnur Freyr Stefánsson hefur verið þjálfari íslenska karlalandsliðsins í undirbúningnum og verður aðalþjálfari liðsins á mótinu og aðstoðarþjálfari hans er Baldur Þór Ragnarsson.
Craig Pedersen þjálfari á ekki heimangengt í verkefnið en hefur tekið þátt í undirbúningnum með þjálfurum sínu og því verða Finnur Freyr og Baldur Þór með liðið á leikunum líkt og fyrir tveim árum.
Karlalandsliðið leikur gegn landsliðum Möltu, Lúxemborg og Svartfjallalands fyrstu keppnisdagana 28.-30. maí. Frídagur verður þann 31. maí og svo er lokaleikur liðsins 1. júní gegn liði Kýpur.
ÍR-ingurinn Sigurður Gunnar Þorsteinsson er reyndasti leikmaður landsliðsins með 54 leiki. Hann hefur samt ekki spilað með landsliðinu síðan í júlílok árið 2017 en kemur nú aftur inn.
Landsliðið verður skipað eftirtöldum leikmönnum á Smáþjóðaleikunum í ár:
Elvar Már Friðriksson · Njarðvík (38 landsleikir)
Dagur Kár Jónsson · Raiffeisen Flyers Wels, Austurríki (2)
Gunnar Ólafsson · Keflavík (10)
Hilmar Smári Henningsson · Haukar (Nýliði)
Halldór Garðar Hermannsson · Þór Þorlákshöfn (Nýliði)
Kristinn Pálsson · Njarðvík (9)
Þórir Guðmundur Þorbjarnarson · Nebraska, USA/KR (5)
Ólafur Ólafsson · Grindavík (28)
Breki Gylfason · Appalachian State, USA (2)
Hjálmar Stefánsson · Haukar (8)
Sigurður Gunnar Þorsteinsson · ÍR (54)
Ragnar Ágúst Nathanaelsson · Valur (40)
Þjálfari: Finnur Freyr Stefánsson
Aðstoðarþjálfari: Baldur Þór Ragnarsson
Þeir leikmenn sem voru við æfingar í hóp en ekki valdir að þessu sinni voru þeir Haukur Óskarsson, Haukum, Ingvi Þór Guðmundsson, Grindavík, Björgvin Hafþór Ríkharðsson, Skallagrím og Sigvaldi Eggertsson, Obradoiro CAB, Spáni.
Sigurður Gunnar kemur aftur inn í landsliðið og er reyndasti maður hópsins
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar

Mest lesið
Fleiri fréttir
