Áfallasaga kvenna er rannsókn sem fjallar um tíðni áfalla og áhrif þeirra á heilsufar kvenna. Rannsóknin tekur til allra íslenskumælandi kvenna 18 ára og eldri og er ein stærsta vísindarannsókn á þessu sviði. Ábyrgðarmaður rannsóknarinnar segir að sterkur grunur sé um að tengsl séu milli áfalla og heilsufars, en þó vanti gögn til að sjá orsakasamhengið betur.
Hún fagnar því að vitundarvakning hafi orðið í samfélaginu varðandi áföll kvenna, til að mynda með metoo byltingunni, en segir að rannsaka þurfi áföll á vísindalegum grunni.
„Við verðum líka að gera kerfisbundna þekkingu á þessu. Það er mjög mikilvægt að vera með vitundavakningu en við þurfum líka að rannsaka hlutina með ströngum vísindalegum aðferðum og það erum við að gera í þessari rannsókn,“ sagði Unnur Anna Valdimarsdóttir, professor og ábyrgðarmaður rannsóknarinnar.

„Það hafa um 32 þúsund íslenskar konur tekið þátt á rúmu ári sem við höfum haft rannsóknina í gangi. Það er í rauninni alveg einstakt á heimsvísu að þú fáir um þriðjung þrjóðarinnar til að taka þátt í slíku átaki. Næstu þrjú ár erum við að rýna í þessar niðurstöður og erum raunar þegar farin að gera það. Þetta er langhlaup og við verðum næstu þrjú á að skoða þessar niðurstöður og reyna að rýna í þetta flókna orsakasamhengi,“ sagði Unnur Anna.
Öllum íslenskum konum gefst kostur á að taka þátt í rannsókninni en skráningu lýkur á miðnætti á morgun.