Skoðun

Hver á hvað?

Jóna Hrönn Bolladóttir skrifar
Ég átti afmæli um helgina og í tilefni af því gistu barnabörnin hjá ömmu og afa. Yfir hafragrautnum á mánudagsmorgni horfði ég á eitt þriggja ára andlit og annað fimm ára og það var verið að ræða málin. „Ég á ykkur,“ sagði ég til að reyna þau. „Ég er amma ykkar og ég á ykkur!“ Þá horfði þriggja ára nafna mín á mig og sagði: „Nei, þú átt okkur ekki, við eigum þig!“ Ég reyndi að malda í móinn og endurtók yfirlýsingu mína heldur ákveðnari, en hún svaraði fullum hálsi og ítrekaði afstöðu sína. Fimm ára drengurinn vildi milda stemninguna og mælti: „En Guð á okkur öll!“ Og þar með lauk þeirri umræðu en ný málefni tekin á dagskrá. Í rauninni var ég heldur ánægð með yfirlýsingar barnanna beggja. – Þriggja ára skottið bar fram sjálfstæðisyfirlýsingu en fimm ára heimspekingurinn minnti á ást Guðs á öllum mönnum.

Það er sístætt umræðuefni þetta með eignarréttinn. Hver á hvað í þessum heimi? Nýlega lá ég á mosaþembu og horfði úr svimandi hæð á fuglinn bjástra í bjarginu undir Arnarstapa líkt og hann hefur gert í þúsundir ára. Uppstreymið af bjarginu bar með sér stækan þef af driti í bland við ilm af hafi. Á heimleiðinni gargaði krían í eyru mér í miklum ham við að verja varp­svæði sitt. Tvær kríur höfðu tyllt sér á skilti við veginn sem á var letrað: „Einkavegur“ líkt og upp á grín, því krían veit betur og fylgir sínum málum ekki síður fast eftir en hún nafna mín. „Þú átt mig ekki, ég á þig!“

Í árþúsundir hefur vorað á Íslandi og gróandinn tekið völdin með fuglasöng, flugnasuði og tófugaggi. Svo mun áfram verða hvað sem öllu mannlífi líður. Við eigum ekki þetta land, landið á okkur. Og vilji einhver um það deila mælir fimm ára barnsröddin: „En Guð á okkur öll!“




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×