Skoðun

Nándin í veikindunum

Jóna Hrönn Bolladóttir skrifar
Ég hef leyft mér á þessum vettvangi að ræða um aðstæður heilabilaðra og ástvina þeirra. Faðir minn, Bolli Gústavsson, glímdi við minnissjúkdóm í 12 ár sem rændi hann lífsgæðum hægt en örugglega. Það getur verið erfitt að vera nálægt þeim sem eru veikir. Ég man að sú djúpa og nærandi tilfinning að tilheyra og njóta umhyggju lifði með föður mínum þrátt fyrir minnisleysið. Það er mikilvægt að þau sem eru gleymin fái að njóta lífsgæða á meðan lífið varir.

Eitt af því sem tilheyrir minnissjúkdómum er málstol og því þarf að finna skapandi leiðir til að vera í nándinni. Hægt er að horfa á eitthvað fallegt saman, njóta návistar dýra eða barna, hlusta á kunnuglega tónlist eða lesa fallegan texta þar sem ekki þarf að halda löngu samhengi. Þrátt fyrir að margir veldu að heimsækja ekki föður minn á sínum tíma en vildu helst muna hann eins og hann var, man ég eftir þremur kollegum hans sem létu ekki vanmátt hans aftra sér. Einn þeirra var Sigurbjörn Einarsson biskup.

Eitt sinn er pabbi var orðinn mjög veikur og dvaldi á Landakotsspítala, kominn í hjólastól og málstol hans var orðið algjört, kom vakthafandi hjúkrunarfræðingur á móti mér og sagði að Sigurbjörn biskup hefði komið í heimsókn. Ég spurði hvort hann hefði staldrað lengi við og hún játti því. Síðan spurði ég hvort hann hefði náð einhverju sambandi við pabba og hún sagði mér að þeir hefðu setið lengi við gluggann þar sem kirkjan í Landakoti blasir við og haldist í hendur. Málstol föður míns kom ekki í veg fyrir að þessir orðsins menn gætu átt samfélag í vináttu og blessað þannig hvor annan. Ég geymi þessa mynd í huga mér alla tíð. Hún veitir mér huggun.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×