Skoðun

Engin miskunn hjá Magnúsi

Kolbrún Baldursdóttir skrifar
Félagsbústaðir hafa nýlega gert þær breytingar að skuldir sem til verða hjá leigjendum eru sendar í innheimtu til þriðja aðila. Fram til þessa hafa leigjendur getað samið um greiðsludreifingu á skrifstofu félagsins. Nú hafa Félagsbústaðir fallið frá samkomulagi um greiðsludreifingu og greiðslufresti á skrifstofu félagsins.

Þetta veldur mér sem borgarfulltrúa áhyggjum. Félagsbústaðir eru í eigu borgarinnar, settir á laggirnar til að halda utan um okkar verst settu borgarbúa. Enginn leikur sér að því að standa ekki við skuldbindingar sínar. Leigjendur Félagsbústaða sem skulda leigu eru uggandi og kvíða því að þurfa að glíma við innheimtulögfræðinga í stað þess að geta samið um skuld sína við skrifstofuna.

Engu máli skiptir hvort skuldin er stór eða smá. Dæmi er um að mánaðardráttur á greiðslu leiði til þess að þriðja aðila, Motus, sé falin innheimta með tilheyrandi kostnaði.

Leigjendur eru viðkvæmur hópur með lítið milli handanna

Margir leigjendur Félagsbústaða eru fjárhagslega aðþrengdir. Fólk sem reglulega hefur staðið í skilum en lendir í greiðsluerfiðleikum vegna óvæntra atvika, t.d. veikinda, verður nú fyrir kostnaðarsömum innheimtuaðgerðum.  Það er umhugsunarefni að Félagsbústaðir skuli beina leigjendum sem skulda til lögfræðinga frekar en að gefa þeim kost á að semja við skrifstofuna.

Þegar skuld er komin í innheimtu þá bætast fljótt við dráttarvextir sé hún ekki greidd. Það gerir stöðu skuldarans enn erfiðari og dregur úr líkum þess að hann geti greitt skuldina. Vissulega er boðið upp á greiðsludreifingu en það getur skrifstofan allt eins gert og hefur gert í gegnum tíðina. Flokkur fólksins hefur lagt fram tillögu um að þessu verði snúið til baka og að Félagsbústaðir haldi sjálfir utan um greiðsludreifingu leiguskulda hjá leigjendum sínum.

Innheimtuþjónusta lögfræðinga er kostnaðarsöm, ekki aðeins fyrir leigjendur heldur einnig fyrir Félagsbústaði. Fyrsta hugsun hjá fyrirtæki eins og Félagsbússtöðum ætti að snúast um hag og líðan leigjendanna. Allt regluverk þarf að vera manneskjulegt, sanngjarnt og taka mið af aðstæðum hvers og eins.

Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×