Í yfirlýsingu Donald Trump Bandaríkjaforseta kemur fram að Hamza bin Laden, sonur stofnanda Al-Kaída hryðjuverkasamtakanna, sé látinn. Hann er sagður hafa verið drepinn í aðgerðum Bandaríkjanna gegn hryðjuverkasamtökum.
Fyrst var greint frá andláti bin Laden í lok júlímánaðar í ár þar sem haft var eftir þremur embættismönnum að hann væri látinn. Þegar Donald Trump var spurður út í málið á blaðamannafundi í júlí sagðist hann ekki vilja tjá sig um það.
Sjá einnig: Sonur Osama bin Laden talinn af
Bin Laden er sagður hafa verið drepinn í landamærahéruðum Afganistan og Pakistan en ekki hefur verið gefið upp hvenær aðgerðirnar fóru fram né hvenær bin Laden lést. Í yfirlýsingunni segir Trump að aðgerðin hafi orðið til þess að leiðtogahæfni Al-Kaída samtakanna skerðist og á sama tíma missi þau mikilvæg söguleg tengsl við stofnandann sjálfan.
„Hamza bin Laden bar ábyrgð á skipulagningu og samskiptum við hina ýmsu hryðjuverkahópa,“ sagði forsetinn og bætti við að lát bin Laden græfi undan mikilvægum þáttum í starfsemi Al-Kaída.
Bandaríkjastjórn hafði áður sett eina milljón bandaríkjadala til höfuðs Hamza bin Laden og var hann talinn vera í landamærahéruðum Afganistans og Pakistans. Þá var óttast að hann væri nýr leiðtogi samtakanna.
