Skoðun

Framtíðarskólar í mótun

Skúli Helgason skrifar
Borgarstjórn hefur samþykkt að efna til hugmyndasamkeppni um byggingu nýrra skóla í Vogabyggð og Skerjafirði. Byggðar verða 1.100-1.200 íbúðir og skólar fyrir um 600 börn í hvoru hverfi. Þar verður byggt á kostum nýrrar menntastefnu Reykjavíkur, sem fléttar saman formlegt og óformlegt nám, með sterkri áherslu á hæfniþættina fimm í forgangi stefnunnar: félagsfærni, sjálfseflingu, sköpun, læsi og heilbrigði.

Hreyft hefur verið hugmyndum um að nýju skólarnir í Vogabyggð og jafnvel Skerjafirði verði samþættir leik- og grunnskólar með frístundastarfi fyrir annars vegar 1-9 ára börn og hins vegar nemendur á aldrinum 10-15 ára með fjölbreyttu vali, félagsstarfi og viðfangsefnum sem hæfa styrkleikum og áhuga hvers og eins.

Framtíðarskólinn getur orðið öflug eining sem nýtir styrkleika leikskóla, grunnskóla og frístundar. Styrkur leikskólans hefur m.a. legið í frjálsa leiknum og sveigjanleika. Leikskólastarf í borginni er á heimsmælikvarða og 95% foreldra eru ánægð með starfið sem þar fer fram samkvæmt nýjustu mælingum. Styrkur frístundaheimila hefur verið að bjóða yngstu grunnskólabörnunum upp á óformlegt nám í hvetjandi umhverfi þar sem frumkvæði og sköpunargleði ráða för. Félagsmiðstöðvarnar hafa byggt á sams konar styrkleikum fyrir eldri börn og ungmenni ekki síst með áherslu á að byggja upp félagsfærni og sjálfstraust. Styrkur grunnskólans liggurekki síst í fjölda fagmenntaðs starfsfólks og markvissri vinnu á ólíkum námssviðum. Til dæmis er mikil fagþekking í grunnskólum á máli og læsi sem mikilvægt er að nýta sem best m.a. í þágu barna með annað móðurmál en íslensku. Ný samþykkt lög um eitt leyfisbréf kennara óháð skólastigi skapa tækifæri fyrir aukið samstarf leik- og grunnskólakennara sem við hljótum að skoða vandlega í góðu samstarfi við samtök kennara.

Framsækinn skóli sem fléttar saman það besta úr menningu leikskóla, grunnskóla og frístundar er spennandi hugmynd sem við viljum þróa áfram í samtali við menntasamfélagið nú þegar við leggjum grunn að framtíðinni í nýjum og eldri hverfum borgarinnar.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×